Jörð farin að hvítna allhressilega
Eftir fádæma langt haust má segja að veturinn sé loksins kominn, alla vega á Norðurlandi vestra. Daníel Kristjánsson á Skeiðfossi í Fljótum tók þess mynd fyrir Feyki í morgun en á henni sést heim að bænum Þrasastöðum í Stíflu.
Að sögn Daníels var komin smá föl þar í sveit fyrir um viku, „ en ekkert til að tala um, bætti aðeins í á þriðjudag og miðvikudag en mestallt hefur þetta fallið síðustu 36-40 tímana,“ sagði hann í samtali við Feyki fyrr í dag.
Snjórinn í Fljótum er hátt í 40 sentímetra djúpur innan við Stífluhóla en eitthvað minna neðar í sveitinni. „Ætli þetta séu ekki svona 35 sentímetrar að jafnaði, eftir að snjórinn „settlaði“ sig í nótt, þar af féllu að minnsta kosti 20 í gær,“ sagði Daníel.
