Kaflaskil hjá Helgu Bjarnadóttur

Það voru sannarlega kaflaskil á dögunum þegar Helga Bjarnadóttir í Varmahlíð kvaddi sér hljóðs á síðustu samkomu félagsstarfs aldraðra á Löngumýri í vetur og tilkynnti þátttakendum að nú léti hún staðar numið eftir 25 ár sem forstöðukona þessa fjölbreytta og vinsæla félagsstarfs.

Aðspurð sagði hún hugmyndina vera Margrétar Jónsdóttur, fyrrverandi forstöðukonu á Löngumýri. Eftir sumardvöl eldri borgara á Löngumýri bar nokkuð á kvíða hjá gestum er við blasti að fara aftur heim og takast á við hversdagsleika og einsemd. Kvað svo rammt að þessu að einn gestanna lagðist í rúmið nokkrum dögum fyrir brottför. Kvöld eitt, er Helga var stödd hjá Margréti, sagði hún Helgu frá þessu og bætti við: „Ætli geti ekki verið að einhverjir séu einmana hér í grenndinni við okkur.“

Í kjölfarið hófu þær vinkonurnar að bjóða upp á samkomur fyrir eldri borgara í framhluta Skagafjarðar með hálfsmánaðar millibili frá hausti og fram á vor. Við skyndilegt fráfall Margrétar vorið 1999 tók Helga við fánanum og fékk til liðs við sig Indu í Lauftúni og saman stóðu þær vaktina í tæp tuttugu ár. Nú síðustu árin hefur Sigríður Garðarsdóttir í Miðhúsum aðstoðað Helgu og einnig hefur Sara Valdimarsdóttir á Frostastöðum lagt gjörva hönd á plóg. Frá upphafi og allt þar til hann flutti úr héraði var Kristján Stefánsson frá Gilhaga mikil hjálparhella, lék undir söng, flutti kveðskap og fróðleik og tók virkan þátt í allri dagskrá.

Annan hvern þriðjudag yfir veturinn safnast saman fólk á Löngumýri allt frá Sauðárkróki og framan úr dölum til að njóta þess sem er í boði. Ævinlega er byrjað á söngstund, síðan er upplestur eða gamanmál og að því loknu spilað eða setið við hannyrðir, og endað á veislukaffi sem Helga og hennar konur reiða fram. Á jólasamverunni er svo enn meira haft við en þá er borðað hangikjöt, farið í pakkaskipti og sungin jólalög. Þá hefur Kristín Árnadóttir djákni á Borðeyri komið í heimsókn og flutt hugvekju.

Í allnokkur skipti var svo félagi eldri borgara á Hofsósi boðið á lokasamveruna á vorin.

Helga hefur komið á mjög skemmtilegu samstarfi við Varmahlíðarskóla, en nokkrum sinnum yfir veturinn koma nemendur þaðan með upplestur, söng eða aðra afþreyingu og blanda síðan geði eða spila við gesti á eftir. Það sama má segja um Helgu Rós Indriðadóttir sem hefur um árabil komið með söngnemendur sína og þeir tekið lagið fyrir gesti. Þessar heimsóknir hafa vakið ómælda ánægju og um leið brúað hið títtnefnda kynslóðabil. Stöku sinnum hafa verið fræðsluerindi t.d. um skyndihjálp sem Karl Lúðvíksson hefur verið óþreytandi að leiðbeina um.

Þessar samkomur hafa ávallt verið vel sóttar, að jafnaði á milli tuttugu og þrjátíu sem koma hvert sinn og ávallt fyllist í skörðin þó einhverjir hverfi frá. Sumir koma akandi á eigin vegum en aðrir þiggja far og eru „bílstjórarnir“ ómetanlegar hjálparhellur þeirra sem hafa ekki tök á að aka sjálf.

Það er ekki nokkur vafi að svona starfsemi er nauðsynleg. Félagsskapur og dægradvöl sem brjóta upp hjá mörgum einsleitan hversdag. Það var ánægjulegt að Helga hlaut samfélagsverðlaun Skagafjarðar á síðasta ári m.a. fyrir hennar merka framlag til félagsstarfs eldri borgara. Dagsverk hennar er sannarlega mikið og heillaríkt, drifið áfram af manngæsku og kærleika. Hafi hún heila þökk fyrir.

/Gunnar Rögnvaldsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir