Kaupfélag Skagfirðinga 130 ára í dag

Í dag eru liðin 130 ár síðan Kaupfélag Skagfirðinga var sett á laggirnar en það var stofnað sem pöntunarfélag 23. apríl 1889. Tólf menn komu saman á Sauðárkróki til að stofna félagið eftir að Ólafur Briem, alþingismaður á Álfgeirsvöllum hafði boðað þá.

Í Skagfirzkum annál Kristmundar Bjarnasonar stendur:
Kaupfélag Skagfirðinga var stofnað sem pöntunarfélag. Það starfaði í tíu hreppadeildum, auk Bólstaðarhlíðardeildar er einnig stóð að stofnuninni. Aðrir hreppar í Austur-Húnavatnssýslu vildu ekki að svo stöddu slíta viðskiptum við Coghill. Fulltrúafundinn sátu: Guðmundur Gíslason á Bollastöðum fyrir Bólstaðarhlíðardeild, Konráð Jónsson í Bæ fyrir Hofsdeild, Hermann Jónasson skólastjóri á Hólum fyrir Hólahrepp, séra Zophonias Halldórsson fyrir Viðvíkurhrepp, Þorvaldur Arason á Flugumýri fyrir Akrahrepp, Pálmi Pétursson á Skíðastöðum fyrir Lýtinga, séra Jakob Benediktsson á Víðimýri fyrir Seylhreppinga, Jón Pálmason á Auðnum fyrir Staðarhrepp, Jónas Jónsson í Hróarsdal fyrir Rípurhrepp, Vigfús Guðmundsson söðlasmiður á Sauðárkróki fyrir Sauðárhrepp og Hjörtur Hjálmarsson á Skíðastöðum fyrir Skefilsstaðahrepp. - Formaður hins nýja félags var séra Zophónias. Ári síðar tók Jón Jakobsson á Víðimýri við formennsku og tveim árum síðar Pálmi Pétursson á Skíðastöðum, en hann var pöntunarstjóri félagsins.

Í dag heldur Kaupfélag Skagfirðinga úti mikilli atvinnustarfsemi í Skagafirði og á einnig í fyrirtækjum víðs vegar um land. Samkvæmt heimasíðu KS eru dótturfélög Kaupfélags Skagfirðinga fjórtán talsins; Bústólpi ehf., Esja Gæðafæði ehf., FISK Seafood ehf., Fóðurblandan hf., Fóðurfélagið ehf., Heilsuprótein ehf., Íslenskar sjávarafurðir ehf., Nýprent ehf., Sláturhús Hellu hf., Sláturhús KVH ehf., Tengill ehf., Trésmiðjan Borg ehf., Vogabær ehf. og Vörumiðlun ehf. Höfuðstöðvar þess eru á Ártorgi á Sauðárkróki.

Kaupfélag Skagfirðinga er samvinnufélag og er deildaskipt. Á heimasíðu KS kemur fram að  mörk deildanna miðist að mestu við þau sveitarfélög er voru í Skagafirði fyrir árið 1998. Deildir kjósa fulltrúa á aðalfund, einn fyrir hverja 25 félagsmenn, en þó kveða samþykktir félagsins á um að það getur engin ein deild átt meirihluta fulltrúa á aðalfundi. Á aðalfundi er rætt um rekstur félagsins, reikningar þess fyrir liðið ár afgreiddir og markaðar meginlínur um framtíðarumsvif. Aðalfundur kýs síðan félaginu sjö manna stjórn, sem fer með æðsta vald í félaginu milli aðalfunda. Stjórnarmenn eru kjörnir til þriggja ára í senn, en hún er aldrei endurkjörin öll í einu og varamenn eru þrír.

Núverandi stjórn KS er eftirfarandi:
Bjarni Maronsson stjórnarformaður, Varmahlíð
Herdís Á. Sæmundardóttir varaformaður, Sauðárkróki
Örn Þórarinsson ritari, Ökrum
Guðrún Sighvatsdóttir, Sauðárkróki
Pétur Pétursson, Sauðárkróki
Sigríður Gunnarsdóttir, Sauðárkróki
Þorleifur Hólmsteinsson, Þorleifsstöðum

Varamenn:
Hjörtur Geirmundsson, Sauðárkróki
Viggó Jónsson, Sauðárkróki
Gunnar Þ. Gestsson, Sauðárkróki

Núverandi kaupfélagsstjóri er Þórólfur Gíslason sem setið hefur í stjórnarstólnum í rúm 30 ár eða síðan 1988 en aðrir kaupfélagsstjórar hafa verið:
1889–1890: Zophónías Halldórsson
1890–1891: Jón Jakobsson
1892–1910: Pálmi Pétursson
1910–1913: Gísli Jónsson

1913–1937: Séra Sigfús Jónsson
1937–1946: Sigurður Þórðarson
1946–1972: Sveinn Guðmundsson
1972–1981: Helgi Rafn Traustason
1982–1988: Ólafur Friðriksson

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir