Koma á plastsmíði í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra
Í dag var undirritaður samningur um að koma á námi í plastsmíðum, nýrri iðngrein við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Verkefnið snýst um að búa til námsskrár og útbúa aðstöðu hjá FNV til að hægt verði að kenna þessa nýju iðn hér á landi. Að verkefninu koma auk FNV; Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ), Den Jydske Haandverkerskole í Danmörku og Salpaus Further Education í Finnlandi. Verkefnið er styrkt af menntaáætlun Evrópusambandsins (Leonardo). Aðrirþátttakendur eru Sveitarfélagið Skagafjörður sem hefur stutt verkefnið dyggilega, Sigurjón Magnússon ehf á Ólafsfirði, Siglufjarðar-Seigur ehf á Siglufirði og stoðtækjafyrirtækið Össur hf.
Um er að ræða tveggja ára verkefni þar sem skólarnir í Finnlandi og Danmörku miðla þekkingu og reynslu sinni í kennslu þessarar iðngreinar við uppbyggingu á náminu hér á landi. Töluverð vinna er framundan við að þróa og aðlaga námið fyrir íslenskar aðstæður, en það verður gert í samráði við starfandi fyrirtæki í plastsmíði á Íslandi. Stefnt er að því að fá námið samþykkt sem fullgilda iðngrein. Styrkur menntaáætlunarinnar er uppá um tvöhundruð tuttugu og fjögur þúsund evrur eða rétt um 36 milljónir ISK.
Plast verður stöðugt mikilvægara hráefni í iðnframleiðslu hverskonar og er nýtt í síauknum mæli, til dæmis við framleiðslu farartækja, til að létta þau og gera umhverfisvænni. Nám í þessum fræðum er ekki í boði hér á landi en með þessu verkefni verður breyting þar á.
Ingileif Oddsdóttir, skólameistari FNV, undirritaði samninginn ásamt Ágústi H. Ingþórssyni, forstöðumanni Landsskrifstofu Menntaáætlunar Evrópusambandsins fyrr í dag, en fyrsti verkfundur verkefnisins verður á Sauðárkróki næstkomandi mánudag. Verkefnisstjóri er Þorkell V. Þorsteinsson, aðstoðarskólameistari.
/Fréttatilkynning