Konur spretta úr spori á laugardaginn

Hið árlega Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ verður haldið þann 13. júní næstkomandi á um 80 stöðum víðsvegar um landið. Fyrsta Kvenna­hlaupið var haldið árið 1990 og var markmið þess að fá fleiri konur út að hreyfa sig og að hvetja þær til þátt­töku í starfi íþrótta­hreyf­ing­ar­innar á Íslandi. Á vefsíðu Kvennahlaupsins segir að þau markmið hafi um margt náðst þar sem konur hreyfa sig mun meira í dag en fyrir 30 árum, ís­lenskar íþrótta­konur eru að ná frá­bærum ár­angri á heimsvísu og margar konur eru í for­svari fyrir íþrótta­hreyf­ing­una hér­lendis. Áherslan núorðið sé þó ekki hvað síst á sam­stöðu kvenna, að hver njóti þess að hreyfa sig á sínum for­sendum og eigi ánægju­lega sam­veru­stund með fjöl­skyldu og vinum.

Í tilefni 30 ára afmælisins var hannaður nýr kvennahlaupsbolur og var Linda Árnadóttir fatahönnuður fengin til þess. Nýi bolurinn er 100% endurunninn, úr endurunninni lífrænni bómull og endurunnu plasti. Bolurinn kemur í stærðum 4-6 ára, 7-8 ára, -10 ára, 11-12 ára, XS, S, M, L, XL, XXL og XXXL. Bolurinn kemur í takmörkuðu upplagi og verður einungis hægt að kaupa hann á tix.is og á örfáum sölustöðum en ekki á hlaupastöðunum. Einnig er hægt að skrá sig í hlaupið á tix.is, án þess að kaupa bol, en tilvalið er að nýta gamlan Kvenna­hlaups­bol til að hlaupa í aftur. Skráningargjald er 1.500 kr. Á vef hlaupsins má kynna sér allt um skráningu og kaup á bolum ásamt hlaupastöðum og tíma.

Samkvæmt upplýsingum á vefnum verður hlaupið á fimm stöðum á Norðurlandi vestra

Á Suðárkróki verður hlaupið frá sundlauginni í dag, fimmtudaginn 11. júní. Hlaupið hefst klukkan 17:00.

Á öðrum stöðum verður hlaupið á laugardag sem hér segir:

Á Borðeyri frá Tangahúsi klukkan 13:00.
Á Hvammstanga frá íþróttamiðstöðinni klukkan 11:00.
Á Blönduósi frá íþróttamiðstöðinni klukkan 10:00.
Í Varmahlíð frá sundlauginni klukkan 10:30.
Á Hólum frá sundlauginni klukkan 11:00.
Á Hofsósi frá sundlauginni klukkan 11:00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir