Kuldabolti á Króknum

Addi Ólafs á fullri ferð í leiknum í dag. MYND: ÓAB
Addi Ólafs á fullri ferð í leiknum í dag. MYND: ÓAB

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar – eða kannski frekar knattspyrnuáhorfs – voru ekki spennandi þegar Tindastóll og Ægir Þorlákshöfn mættust í 3. deildinni á Króknum í dag. Engu að síður var hart tekist á á gervigrasinu og bæði lið gerðu hvað þau gátu til að næla í stigin þrjú en veðrið setti pínu strik í spilamennskuna og fór svo að liðin deildu stigunum í 1-1 jafntefli.

Það var aðeins fimm stiga hiti og norðanstrekkingur í dag en sólin skein þó mestan hluta leiksins. Fátt markvert gerðist í fyrri hálflleik en gestirnir fengu þó besta færið þegar einn Ægismaður slapp inn fyrir vörn heimamanna eftir að Tanner missti boltann. Kappanum brást þó bogalistin, lyfti yfir Atla sem kom út á móti honum og yfir markið líka. Staðan 0-0 eftir jafnan hálfleik.

Áhorfendur þustu inn í vallarhús í hléinu og reyndu að koma í sig smá hita[einingum]. Þá var haldinn fundur í fjölmennu og glaðbeittu samfélagi stuðningsmanna Arsenal. Einhverjir létu sig dreyma um hlýja stúku við gervigrasvöllinn.

Það dró svo loks til tíðinda í leiknum á 57. mínútu þegar Brynjólfur Eyþórsson fékk boltann á miðju vallarins, hann brunaði af stað og lék nokkra varnarmenn Stólanna illa áður en hann kom sér í gott færi við vítateigslínuna og plantaði boltanum síðan örugglega í markið. Þetta var raunar sú vítamínsprauta sem vantaði í leikinn því nú stigu Stólarnir á bensíngjöfina. Það liðu aðeins sex mínútur þar til Tanner Sica jafnaði eftir að hafa fengið boltann óvænt á auðum sjó eftir aukaspyrnu. Lið Tindastóls hafði yfirhöndina í kjölfar jöfnunarmarksins og áttu að fá vítaspyrnu þegar Arnar Ólafs var straujaður í teignum en eftir smá reikistefnu ákvað dómarinn að færa brotið út fyrir teig – sennilega alveg kolröng ákvörðun. Í stað þess að fá víti fengu Tindastólsmenn aukaspyrnu sem ekkert varð úr. Þegar 20 mínútur voru til leiksloka kom Ingvi Hrannar Ómarsson inn á en hann lagði skóna á hilluna haustið 2017. Töluverð mannekla hrjáir lið Stólanna nú á haustdögum en Ingvi stóð fyrir sínu eins og vanalega.

Síðasta stundarfjórðunginn komust Ægismenn betur inn í leikinn og bæði liði ógnuðu en gekk illa að skapa góð færi. Sigurmarkið leit ekki dagsins ljós og úrslitin gerðu lítið fyrir liðin sem eru í hálfgerðu miðjumoði í deildinni. 

Nú á þriðjudag eiga Stólarnir aftur heimaleik en þá koma Vopnfirðingar í Einherja á Krókinn. Lið Tindastóls þarf sigur í leiknum til að forðast að lenda í fallbaráttu. Veðurstofan gerir ráð fyrir sama hitastigi á þriðjudaginn en heldur minni norðanátt. Allir á völlinn!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir