Kynningarfundur um niðurstöður rannsóknar á áhrifum Blöndulínu 3 á ferðaþjónustu og útivist í Skagafirði og Eyjafirði.

Þann 11. janúar n.k. mun Gunnþóra Ólafsdóttir, landfræðingur kynna niðurstöður rannsóknarinnar fyrir heimamönnum í Skagafirði. Í skýrslunni er línulögninni hafnað. Í erindinu mun hún útskýra niðurstöðuna. Sjónum verður einkum beint að upplifunarþættinum og nýttar til þess niðurstöður rannsóknarinnar ásamt doktorsrannsókn hennar á upplifun erlendra ferðamanna á náttúru Íslands.

Fundurinn hefst klukkan 20:30 og verður haldinn í Hótel Varmahlíð

Um þessar mundir stendur yfir umhverfismat á Blöndulínu 3 – 220kV háspennulínu sem fyrirhugað er að leggja á möstrum frá Blöndustöð um Skagafjörð til Akureyrar. Um er að ræða fyrsta áfanga í endurnýjun og styrkingu á byggðalínuhringnum um landið og þáttur í að bæta afhendingu og auka flutningsgetu rafmagns til þeirra staða sem línunni tengjast. Gerðar voru 6 rannsóknir á mögulegum áhrifum framkvæmdarinnar. Ein þeirra var rannsókn á áhrifum Blöndulínu 3 á ferðaþjónustu og útivist.

//

Gunnþóra Ólafsdóttir lauk B.Sc. prófi í landfræði með ferðamálafræði sem aukagrein árið 2003. Hún hlaut Archimedesarverðlaun Evrópusambandsins fyrir lokaverkefni sitt um félagsleg þolmörk ferðamanna í Friðlandi að Fjallabaki og á Lónsöræfum og tillögu að doktorsverkefni á áhrifum ferðalaga um náttúruleg svæði á líðan einstaklinga. Í kjölfarið fékk hún inngöngu í eina virtustu stofnun landfræðinnar School of Geographical Sciences í Bristol Háskóla þaðan sem hún útskrifaðist með doktorsgráðu í febrúar 2008. Hún hefur verið sjálfstætt starfandi fræðimaður við ReykjavíkurAkademíuna frá hausti 2008 og vinnur nú m.a. að ritun bókar byggða á doktorsverkefninu svo það megi nýtast íslenskri ferðaþjónustu. Auk þess er hún annar tveggja skipuleggjenda alþjóðlegrar ráðstefnu tileinkaðri náttúrutengdri ferðamennsku og umræðu um Ísland sem áfangastað ferðamanna nú á tímum aukins ferðamannastraums og álags, sem haldin verður í Listasafni Reykjavíkur helgina 5-6 febrúar n.k. og er öllum opin.

Fleiri fréttir