Lambakjöt á að duga fram að sláturtíð

Vegna frétta um að skortur sé á íslensku lambakjöti vilja Landssamtök Sláturleyfishafa taka fram að samkvæmt birgðaskýrslum voru til um 1100 tonn um síðustu mánaðarmót. Það samsvarar heildarsölu lambakjöts í júlí og ágúst í fyrra. Því bendir allt til þess að nægar birgðir séu til þangað til sláturtíð hefst.

Þrátt fyrir aukin tækifæri á erlendum mörkuðum hafa afurðastöðvar kappkosta að þjónusta íslenska neytendur og bjóða þeim á hverjum tíma eins ferska og nýja vöru og mögulegt er. Með því að lambakjötsbirgðir gangi upp að hausti, er hver og ein afurðastöð að tryggja að eftir að sláturtíð hefst, sé einungis til sölu nýtt lambakjöt, en ekki gamlar birgðir líkt og oft hefur verið.

Ný tækifæri á erlendum mörkuðum eru gleðiefni fyrir bændur og starfsfólk afurðastöðva og í raun alla landsmenn. Með því skapast sóknarfæri í greininni sem tryggir íslenskum neytendum áfram góða vöru og auknar útflutningstekjur sem bæta þjóðarhag.

Landssamtök Sláturleyfishafa.

Fleiri fréttir