Landsnet stofnar verkefnaráð vegna Blöndulínu 3

Blönduvirkjun.
Blönduvirkjun.

Landsnet vinnur að stofnun verkefnaráðs til undirbúnings Blöndulínu 3, 220 kV raflínu milli Blöndustöðvar og Akureyrar. Markmiðið með nýju línunni er að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi þannig að það ráði betur við truflanir og auki hagkvæmni í orkuvinnslu með samtengingu virkjanasvæða. Mun raforkukerfið þjóna allri uppbyggingu og núverandi starfsemi á Norður- og Austurlandi. Fjallað er um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Leitað hefur verið til fimm sveitarfélaga á Norðurlandi um að tilnefna fulltrúa í verkefnaráð Blöndulínu 3. Eru það Akrahreppur, Akureyrarbær, Húnavatnshreppur, Hörgársveit og Sveitarfélagið Skagafjörður og jafnframt hefur verið óskað eftir því að Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Eyþing, samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Háskólinn á Akureyri, Samband sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Skógræktin, SUNN – Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi og Ungir umhverfissinnar tilnefni fulltrúa í verkefnaráðið. 

Í samtali við Morgunblaðið segir Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets, að í dag séu verkefnaráð stofnuð vegna allra stærri framkvæmda Landsnets og leitað sé til staðbundinna hagsmunaaðila um að koma snemma að borðinu. „Þeir verða okkar augu og eyru inn í samfélagið,“ segir Sverrir.

Í viðtalinu kemur fram að ætlunin sé að tengja Blöndulínu 3 ásamt Kröflulínu og Hólasandslínu inn á samtengt flutningskerfi.  „Ef við náum að byggja upp þetta kerfi erum við búin að tengja saman helstu byggðir á Norður- og Austurlandi. Það verða stórar virkjanir á hvorum enda, Blöndustöð vestan megin og Fljótsdalsstöð austan megin. Blöndustöð hefur ekki verið nýtt með fullum afköstum síðan hún var byggð. Einnig tengjast tvær jarðvarmavirkjanir, Þeistareykir og Krafla, auk Laxárvirkjunar þessu kerfi. Þetta mun auka mikið afhendingaröryggi og gefa ýmsa möguleika,“ sagði Sverrir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir