Langt ferðalag Millers á Krókinn

Maurice Miller hinn nýi leikmaður Tindastóls í körfunni hefur fengið að spreyta sig um helgina svo um munar með liðinu og leikið hvað mest allra þrátt fyrir að hafa fyrst séð og tekið æfingu með liðinu á föstudagsmorgun. Um kvöldið kom gott lið Stjörnunnar í heimsókn og lék Miller í rúmar 32 mínútur og skoraði 22 stig og í gær lék hann rúmar 35 mínútur og skoraði 19 stig á móti Keflavík syðra.

 

Langt ferðalag

Leiðin til Íslands var löng fyrir Miller því á fimmtudag hófst ferðalagið í Atlanta þar sem hann flaug í 41/2 tíma til Boston þaðan tók hann flug til Keflavíkur aðra 4 og hálfa klukkustund. Þá tók við akstur til Reykjavíkur þar sem beðið var eftir flugi til Akureyrar þangað sem hann var svo sóttur í bíl til Sauðárkróks. Eftir um sólarhrings ferðalag náði hann að leggja sig í hálftíma áður en hann mætti á æfingu og spilaði svo leikinn um kvöldið.

 

Ársmiðar - bakhjarlar

Eins og áður mun stuðningsmönnum gefast kostur á því að kaupa ársmiða á leiki Tindastóls í vetur og gerast svokallaðir Bakhjarlar Tindastóls. Ársmiðinn fyrir einstaklingsbakhjarla kostar 15.000 krónur en fyrir nemendur FNV kostar hann 7.500. Innifalið er aðgangur á alla heimaleiki í deild og miði á uppskeruhátíð í lok tímabils.

Fleiri fréttir