Liðsmenn Kormáks/Hvatar vilja toppsætið

Það dregur til tíðinda í 4. deildinni um helgina en þá verða lokaumferðir riðlakeppninnar spilaðar. Á Blönduósvelli taka heimamenn í Kormáki/Hvöt á móti sunnlenskum knattspyrnukempum frá Stokkseyri á sunnudaginn. Flest benti til að heimamenn þyrftu nauðsynlega að vinna leikinn til að tryggja sætið í úrslitakeppninni en eftir að lið Skautafélags Reykjavíkur tapaði óvænt fyrir Álafossi í fyrrakvöld þá er það þegar í höfn. 

SR átti einn leik til góða á lið Kormáks/Hvatar áður en leikið var í Mosfellsbænum en í síðustu umferðinni átti lið SR að mæta Snæfellinum sem hafa verið að tapa leikjum með tveggja stafa tölum. Það var því möguleiki að ná í skottið á Húnvetningum en hann er nú úr sögunni. Feykir heyrði í Bjarka Má Árnasyni, þjálfara Kormáks/Hvatar, og spurði hvernig stemningin í hópnum væri fyrir lokaleikinn í riðlakeppninni. „Leikurinn leggst mjög vel í menn. Okkur líður virkilega vel á heimavelli og við erum staðráðnir í að tryggja okkur toppsætið í riðlinum. Það er búin að vera góð stemning í sumar, enda miklir og flottir karakterar í hópnum. Við stöndum saman í þessu allir sem einn.“

Einhver skilaboð til stuðningsmanna? „Ég vona bara að fólk fjölmenni á völlinn og styði við bakið á okkur, því við þurfum á stuðningnum að halda,“ segir Bjarki að lokum. Leikurinn er sem fyrr segir á sunnudag og hefst kl. 16:00.

Lið Tindastóls í eldlínunni

Það er ekki bara á Blönduósi sem fótbolti verður í hávegum hafður um helgina. Á morgun, laugardag,  verður 15. umferðin spiluð í 3. deildinni og þá kemur lið Ægis úr Þórlákshöfn á Krókinn og spilar við Tindastólsmenn kl. 16:00. Enn á eftir að spila átta umferðir í 3. deildinni og því hellingur af stigum sem hægt er að krækja í áður en yfir líkur. Lið Tindastóls hefur hins vegar ekki verið á sigurbraut í síðustu umferðum og ólíkleg að liðið blandi sér í baráttuna um sæti í 2. deild.

Tveimur tímum fyrr, laugardag kl. 14:00, verða Stólastúlkur í eldlínunni í Lengjudeildinni en þá mæta þær liði Fjölnis á Extra-vellinum í Grafarvogi. Það er um að gera fyrir stuðningsmenn Tindastóls að fjölmenna á leikinn og hvetja Pepsi Max-deildar kandítana til dáða. Stelpurnar eiga svo heimaleik gegn ÍA laugardaginn 19. september.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir