Ljósið við enda ganganna - Áskorendapenninn Björn Jóhann Björnsson brottfluttur Skagfirðingur

Tveggja metra regla, sóttkví, heimkomusóttkví, samkomubann, sóttvarnahólf, Zoom, landamærasmit, innanlandssmit, andlitsgrímur, farsóttarhús, farsóttarþreyta, þríeykið, Björn Ingi á Viljanum.

Fyrir einu og hálfu ári vorum við ekkert að spá í þessi orð, sum þeirra varla til í orðaforðanum. Við vorum grunlaus um hvað var í vændum. Lifðum okkar daglega lífi áhyggjulaus. Faðmlög, fundir og ferðalög voru sjálfsagðir hlutir. En ekki lengur.

Undanfarið ár hefur verið ein allsherjar rússíbanareið. Bylgjur upp og niður líkt og í ólgusjó. Smitum fjölgað og fækkað, aðgerðir hertar og síðan slakað á. Fjarlægðin tveir metrar eða einn, 10, 20 eða 50 manns að hámarki komið saman, stundum 100. Hvort við erum í annarri, þriðju eða fjórðu bylgju veit ég ekki. Á línuritum sjást að minnsta kosti tveir góðir toppar. Þegar þetta var skrifað virtist hafa tekist að koma í veg fyrir hópsmit en guð má vita hvernig staðan er þegar þú lest þessar línur, ágæti lesandi Feykis.

Talað við málverkin
Vonandi styttist í að hægt verði að fara á gamlar heimaslóðir norður í Skagafjörð, til að anda að sér heilnæmu lofti og hitta ættingja og vini. Það hefur því miður ekki gerst síðan í haust. Heimilið hefur af öryggisástæðum ástundað strangar sóttvarnir með húsmóðurina í framvarðasveit heilbrigðiskerfisins. Engir sénsar teknir. Nú er hún komin með bóluefni og við getum andað aðeins léttar. Mörg hver höfum við unnið heima í faraldrinum, dögum, vikum og jafnvel mánuðum saman. Þetta var ágætt til að byrja með en á endanum var maður farinn að tala við málverkin á veggjunum – og sum þeirra svöruðu til baka!

Blessunarlega hefur skagfirska efnahagssvæðið farið nokkuð vel út úr faraldrinum. Smit hafa verið fá, miðað við marga aðra landshluta, og því ber að fagna. Það er kannski rannsóknarefni fyrir Kára Stef hvort virkt mótefni sé mögulega að finna í skagfirsku blóði, það væri nú eitthvað! Því hefur gjarnan verið haldið fram að Skagfirðingar séu almennt glaðsinna og sólgnir í félagsskap og fjör. Miðað við þá kenningu hefði mátt halda að bráðsmitandi veira hefði farið með leifturhraða á milli sveita, allt frá Akrahreppi út í Fljót. Það hefur ekki gerst - sjö, níu, þrettán.

Skagfirðingar hafa slegið veisluhöldum á frest, dregið úr ferðalögum milli landshluta og verslað meira í heimabyggð, eða eins og sagt var forðum; ef hlutirnir fást ekki í kaupfélaginu, þarftu þá ekki!

Þó að Skagfirðingar og aðrir landsmenn hafa sýnt varkárni og nægjusemi þá þýðir það ekki endilega að þeir fái sér ekki í tána annað slagið eða stundi heimaleikfimi. Á svona stundum getur verið gott að grípa til heimaframleiðslu á lífsins guða veigum. Síðan fer fæðingum almennt fjölgandi í landinu, ári frá fyrsta alvöru samkomubanninu, og skagfirska efnahagssvæðið er áreiðanlega ekki undanskilið þar.

Með hægt fjölgandi bólusetningum ættum við að geta séð ljósið við enda ganganna. Hvað sá gangur er langur er ekki vitað. Stjórnvöld lofa öllu fögru um að allir verði orðnir bólusettir í lok sumars. Líklega verður það ekki fyrr en rétt fyrir kosningar, eða rétt fyrir jól.

Annars er kominn nýr gangur í umræðuna, ólgandi kvikugangur undir Reykjanesskaga. Þegar þetta var skrifað var beðið eftir eldgosi, ljósinu við enda ganganna.

Til stóð að skrifa hér um Liverpool en því var frestað um sinn! Ég skora á sveitunga minn og samstúdent, Önnu Elísabetu Sæmundsdóttur, til að setja saman næsta pistil.

Áður birst í 11. tbl.  Feykis 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir