Lögreglan ánægð með áramótin
Verkefnalisti lögreglunnar í desember var með fjölbreyttara móti en meðal verkefna voru umferðaróhöpp þar sem lögreglan hefur haft aðkomu að 10 umferðaróhöppum, árekstrum og útafkeyrslum. Flest þessara óhappa hafa verið slysalaus eða minniháttar en eignatjón þó nokkuð. Almenn notkun öryggisbelta eins og lög kveða á um hefur þar skipt öllu máli og komið í veg fyrir meiri skaða en þó varð, segir á vef Lögreglunnar á Sauðárkróki.
Nokkrir ökumenn voru staðnir að hraðakstri en góð vetrarfærð getur breyst mjög skyndilega þegar hálka myndast í lægðumsegir ennfremur á vefnum, og þá getur skipt miklu máli að ökuhraði sé ekki meiri en svo að ökumaður eigi möguleika á að bregðast við óvæntum aðstæðum. Þegar talað er um leyfilegan hámarkshraða er átt við að sá hraði sem tilgreindur er eigi við þegar aðstæður eru eins og best verður á kosið. Strax og farið er að rökkva eru aðstæður ekki eins og best verður á kosið. Sama má segja um þegar úrkoma er. Það má því segja að megin reglan sé sú að aka ekki hraðar en aðstæður leyfa og aldrei hraðar en leyfilegur hámarkshraði er þar sem ekið er.
Stefán Vagn yfirlögregluþjónn segir að skemmtanahald hafi farið vel fram um jól og áramót í Skagafirði og eru hans menn mjög sáttir. Stefán segist mjög ánægður með nýársdansleikinn sem fram fór á Mælifelli en þá var haldinn fagnaður þar sem einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og Svf. Skagafjörður komu að og dansleikjahaldi þar sem aldurstakmark var 16 ár.