Lungnabólga í lömbum meiri nú en undanfarin ár
Lungnabólgutilfellum í lömbum virðast vera fleiri í ár en nokkur undanfarin og kemur þetta í ljós þegar þeim er slátrað. -Svæðisbundið vandamál í Hrútafirði og stöku bæjum um allt Norðurland, segir Þorsteinn Ólafsson hjá Matvælastofnun.
-Það er svo að það er eins og lungnavandamál í lömbum skjóti upp kollinum og séu verri eitt árið en annað á stöku bæjum. Núna í ár hef ég aðeins heyrt um svæðisbundið vandamál í Hrútafirði og stöku bæi um allt Norðurland, segir Þorsteinn en hann útilokar að tengsl séu á milli þessarar veiki og hestapestarinnar. -Þetta virðist oftast tengjast svokallaðri kregðu (Mycoplasma ovipneumonia) og lungnaormum og virðist ekki há þroska lambanna en á einum og einum bæ hefur fylgt þessu brjósthimnubólga með tjóni á afurðum. Það sem hefur verið rannsakað bendir ekki til neinna tengsla við smitandi hestahósta.
Sláturtíð hefur gengið vel hjá sláturhúsunum þremur Norðurlandi vestra en henni lýkur í næstu viku. Á KS á Sauðárkróki eru áætluð vertíðarlok á fimmtudag/föstudag í næstu viku en „slúttið“ verður í kvöld, því megnið af erlenda starfsfólkinu fer til síns heima í lok næstu viku. Á mánudag verður kind no. 100.000 slátrað hjá sláturhúsi KS.
Hjá SAH á Blönduósi er reiknað með að vertíð ljúki 29. október. Að sögn Sigurðar Jóhannessonar verður fjöldi sláturfjár væntanlega svipaður og í fyrra, eða á bilinu 92 - 93 þúsund fjár. Meðalvigt er nokkru meiri í ár eða 16.15 kg. á móti um 15,90 kg á sama tíma í fyrra.
Hjá KVH á Hvammstanga er reiknað með að slátra rúmlega 80 þúsund fjár en sláturtíð líkur væntanlega fimmtudaginn 29. okt. Að sögn Magnúsar Jónssonar sláturhússtjóra hefur sláturtíðin gengið mjög vel og nýting á sláturdögum aldrei verið betri. Meðalþyngd hjá KVH er núna 16,37 kg