Margir vilja Héðinsfjarðará

Nýlega voru opnuð tilboð í Héðinsfjarðará sem er nú allt í einu orðin ein af aðgengilegri veiðiám landsins, eftir gerð Héðinsfjarðargangna, en áður var þetta töfrum ljómuð afdalaá sem virkilega erfitt var að nálgast.

Alls bárust sjö tilboð í ána, fimm þeirra til eins árs eins og veiðifélag árinnar lagði upp með, en tvö voru annars vegar til 3 ára og hins vegar til 10 ára. Eins árs tilboðin voru á bilinu 760.000 til 1.210.000 krónur, en tíu ára leigutilboðið sem kom frá Stangaveiðifélögum Siglufjarðar og Akureyrar sameiginlega var upp á 1,3 milljónir. Veitt er á 4 stangir frá 15. júlí til 15. ágúst, en eftir það er þeim fækkað í tvær og veiði bönnuð efst í ánni. Í ánni er eingöngu sjóbleikja og verður kvóti upp á 7 drepna fiska á stöng á dag.

Sem fyrr segir var aðgengi að ánni fyrrum erfitt. Það þurfti annað hvort að príla yfir bratt fjallaskarð, nokkra klukkutíma erfiði, eða fara sjóleiðina og taka áhættuna að verða innlyksa vegna veðurs, en nú er einn umtalaðasti þjóðvegur landsins nánast á árbakkanum og afdalaljóminn farinn. Eggert Skúlason gerði Héðinsfjarðará fræga með Veiðiperludisknum um árið og enn er áin tekin fyrir á nýjum veiðidiski, The Source – Iceland.

/Vötnogveiði.is

Fleiri fréttir