Mark í uppbótartíma - Leiðari Feykis

Þar kom að því að við Króksarar fengum bévítans veiruna í bæinn. „Eins og Skrattinn úr Sauðánni,“ eins og kallinn sagði í denn. Mér fannst það snjöll samlíking þegar haft var eftir einum sem sat í sóttkví að þetta var eins og að fá á okkur mark í uppbótartíma. Það gerist ekki meira svekkjandi.

En ég hef ekki heyrt neinn vera með ásakanir á hendur þeim sem báru smitið norður enda ekki sanngjarnt. Sýktur einstaklingur í borginni hafði fengið neikvæða svörun úr skimun og taldi sig því vera lausan við kórónuveiruna. Foreldri að norðan heimsækir viðkomandi og flytur veiruna í vinnufélaga sem situr með honum í bíl norður á Krók en sá er í viðtali á forsíðu.

Í kjölfarið dreifir veiran sér á milli manna og fjöldi manns kominn í sóttkví og einangrun og sér ekki fyrir endann á þeim ósköpum þegar þessi pistill er í smíðum. Þetta atvik sýnir hve lævís agnarlitli óvinurinn er og getur gert mikinn usla.

Það er margt í þessum heimsfaraldri sem kemur á óvart. Mér sýnist falskt öryggi liggja víða líkt og með skimun sem gefur neikvæða niðurstöðu en viðkomandi reynist samt smitaður. Oft hefur verið bent á að grímunotkun sé ekki eins góð vörn og ætla mætti þar sem flestir umgangast hana rangt með óþarfa snertingum og endurtekinni eða langri notkun.

Annað sem fólk hefur bent á er að þegar upp kemur hópsmit á höfuðborgarsvæðinu stendur öll þjóðin saman og herðir sóttvarnaraðgerðir um allt land en ef sami fjöldi smitast norður í landi er héraðið skilgreint sem hættusvæði og situr eftir meðan allir aðrir fá aukið frelsi.

Þá virðist veiran, þrátt fyrir að vera bráðsmitandi, gera mikinn mannamun. Þannig hefur það gerst svo ég viti, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, að ekki er sjálfgefið að sambúðarfólk smitist. Frekar að það smiti, eða smitist af vinnufélögum eða kunningjum. Það finnst mér undarlegur andskoti en fagna því svo sem alveg. Það lítur bara ekki nógu vel út svona út á við.

En uppbótartíminn er ekki alveg liðinn: „Bítum í skjaldarrendur!“ eins og Bjarni Felixson sagði svo eftirminnilega í íþróttalýsingum sínum, berjumst eins og ljón og verum betri en enginn. Það er næsta víst að við sigrum þennan andstæðing. Og munum að fara varlega og vanda okkur í sóttvörnunum.

Góðar stundir
Páll Friðriksson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir