Mikil hjálp að viðurkenna vanmáttinn
Líf Valbjargar Pálmarsdóttur tók sannkallaða U- beygju fyrir ári síðan þegar hún greindist með brjóstakrabbamein á þriðja stigi. Valbjörg, sem alltaf er kölluð Abba, er fædd árið 1973 og alin upp í fallegu sveitinni sinni, á bænum Egg í Hegranesi, með foreldrum og systkinum. Abba býr í dag á Sauðárkróki og á börnin þrjú, þau Maríu Ósk, Berglindi Björgu og Þórð Pálmar. Abba útskrifaðist sem leikskólakennari árið 2001 og starfar sem deildarstjóri á leikskólanum Ársölum. Í tilefni af bleikum október segir Abba okkur einlæga og persónulega sögu sína, við gefum Öbbu orðið.
Fyrir um fjórum árum fékk ég að vita að ég er BRACA2 arfberi sem þýðir að ég er í aukinni áhættu á að fá bæði brjósta- og eggjastokkakrabbamein. Mér var frekar brugðið við þessar fréttir, en fór og hitti erfðaráðgjafa og lækna á Landspítalanum sem ráðlögðu mér að vera í þéttu eftirliti þar sem fylgst væri með þessum líffærum. Ég hef samviskusamlega sinnt þessari skimun og farið í segulómun af brjóstum á sex mánaða fresti og sex mánuðum síðar í röntgenmyndatöku. Ég hitti líka kvensjúkdómalækni reglulega sem fylgist með eggajastokkum. Í mars 2024 fór ég í röntgenmyndatöku af brjóstum. Allt kom vel út. Sex mánuðum síðar, eða í október 2024, fór ég í segulómun. Nokkrum dögum síðar fékk ég hringingu frá lækni í brjóstateymi Landsspítalans sem segist vilja skoða betur ákveðið svæði í öðru brjóstinu. Eftir sýnatöku úr brjóstinu og erfiða bið, var niðurstaðan sú að ég væri með 11 sm æxli í hægra brjóstinu. Meinið hafði einnig dreift sér í eitla þannig að mér var sagt að ég væri með þriðja stigs krabbamein. Eins og gefur að skilja var þetta mér ofboðslegt áfall. Ég hafð talið sjálfri mér trú um að með því að vera í góðu eftirliti yrði ég gripin strax á frumstigi ef einhverjar breytingar gerðu vart við sig. Ég fékk hálfgert taugaáfall og lá bara í rúminu og grét. Ég átti erfitt með svefn og þegar ég loksins náði að sofna, þá vaknaði ég upp með martraðir. Þetta var svo klikkað allt því ég sjálf fann aldrei neinn hnút í brjóstinu. Ég var bara hraust að mér fannst og dugleg að fara í ræktina.
Eftir þetta greiningarferli tók við mjög erfið lyfjagjöf, alls átta skipti sem stóðu yfir frá desember 2024 til apríl 2025. Ég fór aðra hverja viku til Akureyrar í lyfjagjöf. Eftir lyfjagjöf númer tvö, sem var rétt fyrir síðustu jól, fór hárið mitt að detta af og lét ég raka það af á Þorláksmessu. Það reyndist mér mjög erfitt og hafði talsverð áhrif á sjálfsmynd mína.
Ég varð mjög veik af krabbameinslyfjunum og fékk miklar aukaverkanir af þeim. Þegar farið var að síga á seinni hlutann af lyfjagjöfinni stóð ég varla í lappirnar fyrir lið- og taugaverkjum. Þann 12. Maí síðastliðinn fór ég svo í tvöfalt brjóstnám á Landspítalanumm. Aðgerðin var umfangsmikil og stóð yfir í sex klukkutíma. Bæði brjóstin voru fjarlægð auk þess sem allir eitlar undir hægri hönd voru teknir og reyndust ellefu af 25 vera sýktir. Þremur mánuðum eftir aðgerðina fór ég svo í 15 skipti í geisla á Landspítalanum. Sú meðferð kláraðist þann 20. ágúst síðastliðinn.
Þetta ferðalag síðastliðið ár er búið að kosta mig blóð, svita og tár. Ég er búin að glíma við mikinn kvíða og depurð, sérstaklega eftir að geislarnir kláruðust í haust. Þá fór ég alveg á botninn andlega, enda líf mitt búið að taka algera U-beygju á einu ári. Það er fyrst núna, um ári síðar, sem mér finnst ég geta staldrað við eftir allt sem á undan er gengið, horft um öxl og viðurkennt fyrir sjálfri mér að það er mjög erfitt að standa frammi fyrir lífsógnandi sjúkdómi.
Ég hef fundið fyrir vanmætti yfir því að geta ekkert gert, nema trúa og treysta læknum og Guði. Ég er trúuð og í þeim fyrri áföllum sem ég hef gengið í gegnum á lífsleiðinni, hef ég leitað í trúna. Þegar þetta áfall reið yfir varð ég mjög reið við Guð og talaði ekki við hann lengi. Sem betur fer er reiðin á undanhaldi, enda tekur hún mikinn toll. Það að greinast með krabbamein er sorgarferli sem tekur langan tíma að fara í gegnum og vekur upp tilfinningar eins og afneitun, reiði og að þurfa að sætta sig við orðinn hlut. Mér þótti erfitt að fara í veikindaleyfi og missa þar með þann félagsskap sem vinnan veitir mér. Mér fannst ég einangrast umtalsvert í gegnum þetta ferli en slíkt er ekki óalgengt hjá þeim sem greinast með krabbamein. Á meðan á lyfjagjöf stóð hitti ég fáa til að minnka líkur á veikindum. Ég elska vinnuna mína og börnin í leikskólanum gefa mér svo mikið. Ég heimsæki deildina mína af og til, svo þau gleymi mér ekki alveg. Einn vinur minn á deildinni hitti mig í vor og sagði: „Abba, núna er ég með hár eins og þú” en þá var mamma hans búin að raka hann.
Það sem hefur hjálpað mér við að komast í gegnum þennan skafl, er að fara út að ganga hvern einasta dag, vera úti í náttúrunni. Stundum er ég með storminn í fangið og stundum skín sólin á móti mér, svona rétt eins og lífið er. Einnig hef ég farið í jóga og stundað hugleiðslu en hvoru tveggja róar taugakerfið. Það sem hefur líka hjálpað mér er að viðurkenna vanmátt minn yfir þessu áfalli og leita mér hjálpar á réttum stöðum. Ég hafði samband við Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis og fékk þar viðtal við ráðgjafa. Ráðgjafi frá Krabbameinsfélagi Íslands hefur einu sinni komið á Sauðárkrók og er væntanlegur aftur hingað. Þessi stuðningur skiptir gríðarlega miklu máli og ég hvet fólk sem lendir í áfalli til að stíga skrefið og fá hjálp. Einnig hef ég leitað til Ljóssins en þegar ég þurfti að dvelja í Reykjavík vegna geislameðferðar nýtti ég mér þjónustuna hjá þeim. Mikið sem ég er þakklát fyrir Ljósið og alla þá faglegu vinnu sem þar fer fram. Ljósið er líka með fræðslu í gegnum streymi fyrir okkur sem búum úti á landi, og það er mjög gagnlegt að þiggja fræðslu og fá að sjá og tala við fólk sem er í sömu sporum og ég.
Þegar ég fékk mína krabbameinsgreiningu tók við mikil óvissa og alls konar spurningar komu upp í huga mér: Hvað verður með Þórð Pálmar minn ef hann hefur mig ekki? Næ ég að ferma hann? Hvað með stelpurnar mínar, mun ég áfram getað verið til staðar fyrir þær? Þessum spurningum getur enginn svarað en vonin og þau verkfæri sem ég hef tileinkað mér munu hjálpa mér að taka einn dag í einu. Ég er mjög þakklát fyrir að búa hér á Sauðarkróki þar sem samfélagið tók þétt utan um mig. Nokkrir góðir vinir mínir tóku sig saman og héldu styrktaræfingu fyrir mig í Þreksport, þar sem mættu um 100 manns. Þetta var alveg ótrúlega fallegur og góður dagur sem ég er svo þakklát fyrir og mun aldrei gleyma. Ég er líka mjög þakklát fyrir hvað kennarateymið í Árskóla tók vel utan um drenginn minn.
Fjölskyldan og vinir mínir standa líka við bakið á mér, sem er ómetanlegt. ein í þessari stöðu, skiptir öllu máli. Ég var mikið ein fyrstu mánuðina eftir að ég greindist og það reyndist mér erfitt. Í vor skipulögðum ég og vinkona mín, sem greindist í annað sinn með krabbamein, hitting þar sem við settum okkur í samband við konur sem við vissum að hefðu greinst nýlega með krabbamein. Við hittumst núna og spjöllum annan hvern mánudag og þessir hittingar eru einstaklega dýrmætir og gefandi. Ef það eru einhverjar konur þarna úti sem vilja koma og hitta okkur, þá eru þær velkomnar.
Í dag er staðan þannig að ég er að taka krabbameinslyf til að minnka líkur á endurkomu krabbameinsins og verð á þessu lyfi í eitt ár. Þetta lyf hefur nokkrar aukaverknir, s.s. minni matarlyst, skrítið bragðskyn, sár í munni og liðverki svo eitthvað sé nefnt. Í nóvember mun ég fara í aðgerð þar sem eggjastokkar verða fjarlægðir og í framhaldi mun ég fara í lyfjagjöf í tvö ár vegna beinþynningar. Í gegnum svona ferli er jafningjastuðningur gríðarlega mikilvægur. Það að geta speglað sig við aðrar konur í svipaðri stöðu, og finna að þú ert ekki ein í þessari stöðu, skiptir öllu máli.
Bleikur október er árleg árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins, tileinkað baráttunni gegn krabbameini hjá konum. Eftir að hafa reynt á eigin skinni hvað það er að ganga í gegnum krabbameinsferli, skil ég svo miklu betur þörfina fyrir starfsemi Krabbameinsfélagsins og hversu miklu máli allur stuðningur og fræðsla skipta. Sem betur fer er mikil þróun í krabbameinslyfjum, sem gefur okkur sem höfum greinst með krabbamein meiri von. Allur fjárstuðningur sem hjálpar til við rannsóknir á sviði krabbameina er líka dýrmætur enda sýnir tölfræðin að um þriðjungur Íslendinga greinist með krabbamein á lífsleiðinni. Sá lærdómur sem ég hef dregið af minni lífsreynslu er að ég þarf að læra að lifa með óvissunni. Spurningar eins og: Hvað ef ég greinist aftur? Hvað gerist þá? koma oft upp í kollinn. Einnig hef ég lært hversu mikilvægt er að leita sér hjálpar og viðurkenna að við áfall eins og þetta þarf maður hjálp frá fagaðilum. Ég þarf líka að reyna að sættast við líkamann minn eins og hann er núna.
En umfram allt ætla ég að reyna eftir bestu getu að lifa í núinu og njóta lífsins með fólkinu mínu.
