Norðan hríð í kortunum og gular veðurviðvaranir í gildi

Það er eins gott að gera ráðstafanir í tíma, festa trampólínin eða koma þeim í hús og annað sem gæti farið af stað í rokinu.
Það er eins gott að gera ráðstafanir í tíma, festa trampólínin eða koma þeim í hús og annað sem gæti farið af stað í rokinu.

Það er ekki bjart framundan í veðrinu því spáð er vaxandi norðanátt á morgun með rigningu á norður- og austanverðu landinu og slyddu eða snjókomu til fjalla um kvöldið og segir í athugasemd veðurfræðings á heimasíðu Veðurstofunnar að færð gæti því spillst á fjallvegum annað kvöld. Einnig er spáð hvössum vindstrengjum undir Vatnajökli og á Austfjörðum annað kvöld, sem getur reynst varasamt ökutækjum með aftanívagna.

Gul viðvörun er í gildi vegna veðurs fyrir Strandir og Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi, Austfirði, Suðausturland og Miðhálendi. Útlit er fyrir norðan hvassviðri eða storm, 15-20 m/s og talsverða úrkomu á Ströndum og Norðurlandi vestra og verður hiti nærri frostmarki og því líklegt að úrkoma falli sem slydda ofan 200 metra yfir sjávarmáls og sem snjókoma ofan 400 metra. Á Veður.is segir að veðrið gæti skapað vandræði fyrir búfénað, einkum kindur til fjalla. Líklegt er talið að færð spillist á fjallvegum og ferðalangar á svæðinu ættu að huga vel að veðurspám.

Veðurspá fyrir Strandir og Norðurland vestra
Norðaustan 8-13 og smáskúrir, en rigning á Ströndum. Hiti 5 til 12 stig, hlýjast í innsveitum. Norðan 10-18 og rigning á morgun en slydda eða snjókoma til fjalla annað kvöld. Kólnandi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:
Norðvestan 13-23 m/s, hvassast SA til, en lægir smám saman á V-landi. Talsverð eða mikil rigning á NA-verðu landinu og slydda eða snjókoma til fjalla, en bjart S- og V-lands. Dregur smám saman úr vindi og úrkomu seinnipartinn. Hiti 3 til 14 stig, svalast fyrir norðan. 

Á laugardag:
Norðvestan 5-13 og skýjað NA-til og hvassast við ströndina, en annars hægari og bjart veður. Lægir smám saman og léttir til NA-til. Hiti 7 til 12 stig, en 3 til 7 stig NA-til.

Á sunnudag:
Gengur í strekkings eða allhvassa sunnanátt með talsverðri rigningu, en lengst af þurrt NA til. Milt í veðri.

Á mánudag:
Útlit fyrir stífa suðvestanátt með rigningu eða skúrum, en þurrviðri eystra og kólnar í veðri.

Á þriðjudag:
Líklega vestlæg átt með skúrum og fremur svölu veðri, en bjart SA-til.

Gömul veðurtrú

Í ljósi þess að sumarblíðunni virðist hér með lokið er forvitnilegt að skoða gamla veðurtrú sem þekkt var áður fyrr á Íslandi að veðurfar myndi batna með höfuðdegi, 29. ágúst. Segir svo frá því á einum stað: „Bregður þá vanalega veðráttu og helzt þá hið sama í 20 daga og minnir á það í 40 daga eftir Egediusmessu (1. sept.).“ Þeir sem það muna hvernig veðrið var á höfuðdegi sjá að hér er á ferðinni undantekningin sem sannar regluna.

Uppfært: Búið er að breyta gulri viðvörun í appelsínugula fyrir Norðurland eystra og Austurland að Glettingi. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir