Norðurland vestra verður eitt lögregluumdæmi
Lagt hefur verið fram á Alþingi nýtt frumvarp um breytingu á lögreglulögum þar sem lagt er til að lögregluumdæmin verði 8 í stað 15 eins og nú er. Ráðherra verður þó heimilt að fela sýslumönnum að fara með daglega lögreglustjórn í umboði lögreglustjóra á tilteknum svæðum af tilliti til sérstakra aðstæðna í einstökum landshlutum, sem gera það að verkum að heppilegt kann að þykja að halda í það fyrirkomulag að dagleg verkstjórn lögreglu sé í höndum viðkomandi sýslumanns.
Með þeirri tillögu sem hér er lögð til felst að fallið hefur verið frá því að sameina alla lögregluna á Íslandi í eina stofnun, eins og áður var stefnt að en markmiðið er þó að lögreglan vinni í auknum mæli saman sem ein heild.
Landið skiptist í átta lögregluumdæmi. Með lögreglustjórn fara lögreglustjórar sem hér segir:
- 1. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.
- 2. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum.
- 3. Lögreglustjórinn á Vesturlandi.
- 4. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum.
- 5. Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra.
- 6. Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra.
- 7. Lögreglustjórinn á Austurlandi.
- 8. Lögreglustjórinn á Suðurlandi.
Umdæmi lögreglustjóra verða ákveðin með reglugerð að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og fara lögreglustjórar með stjórn lögregluliðs, hver í sínu umdæmi. Þeir annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæminu og bera ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess. Lögreglustjórar fara með yfirstjórn leitar- og björgunaraðgerða í landi en um björgun sem heyrir undir skipulag almannavarna gilda sérstök lög. Ráðherra setur reglur um samstarf lögreglu og björgunarsveita.
Með þessari breytingu er stefnt að því að til verði öflug lögreglulið sem njóti styrks af stærri liðsheild með færri yfirmönnum og verði hagkvæmari rekstrareiningar til lengri tíma litið.
Á þessu stigi liggur ekki fyrir af hálfu innanríkisráðuneytisins greining á fyrirkomulagi nýrra lögregluembætta né rekstraráætlanir fyrir endurskipulagðri starfsemi á þessu sviði þannig að hægt sé að meta fjárhagsleg áhrif.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012. Ákvæði til bráðabirgða öðlast þó þegar gildi.