Nýmæli í nýrri reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Sjúkratryggingar greiða fargjald eins fylgdarmanns með konu sem þarf að ferðast til að fæða barn á heilbrigðisstofnun samkvæmt nýrri reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands sem tók gildi 1. janúar sl. Á vef stjórnarráðsins segir að um nýmæli sé að ræða og sömuleiðis þau ákvæði þar sem komið er til móts við ferðakostnað nýrnasjúkra sem þurfa á reglubundinni blóðskilunarmeðferð að halda.

Ef sjúklingur sækir blóðskilunarmeðferð að minnsta kosti tvisvar í viku endurgreiða Sjúkratryggingar Íslands ¾ hluta kostnaðar í umsömdum hagkvæmum ferðum með leigubifreið, allt að 60 km vegalengd. Skilyrði er að viðkomandi sé ófær um að aka bifreið og geti ekki nýtt sér almenningsfarartæki af heilsufarsástæðum. Leitað skal hagkvæmustu leiðar og greiðslusamningur gerður við leigubílstjóra um ferðirnar. Sjúkratryggingar Íslands geta óskað eftir afriti af slíkum samningi til staðfestingar.

„Þetta er mikilvægt hagsmuna- og réttlætismál fyrir það fólk sem hér um ræðir, er til þess fallið að auka jöfnuð og bæta aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á stjornarradid.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir