Öflug grjóttínsluvél í Blönduhlíðina og syngjandi sveifla í Sæmundarhlíðinni

Gísli Björn við grjóttínsluvélina góðu. Mynd: Kraftvélar.
Gísli Björn við grjóttínsluvélina góðu. Mynd: Kraftvélar.

Á Facebooksíðu Kraftvéla er sagt frá því að Gísli Björn Gíslason bóndi á Vöglum í Blönduhlíð í Skagafirði hafi lengi barist við grýttan svörð í sínum flögum svo komið væri að því að fá sér öflugt tæki til að auka afköstin. Fyrir valinu varð Kongskilde StoneBear 5200T grjóttínsluvél frá Kraftvélum með tveimur greiðum og safnkassa.

Vélin er með 5,2 metra vinnslubreidd og safnkassa sem rúma 1,8m3, 24 tindar eru á rakstrarörmum og flotmikil 500/55/22,5 dekk eru á tandem hásingu. Í færslunni kemur fram að Kongskilde StoneBear grjóttínsluvélar séu þrautreynd tæki með áratuga reynslusögur á bakinu. 

Í færslu Kraftvéla segir að vegna Covid-19 vírusins hafi orðið töf á afgreiðslu vélarinnar þannig að prufukeyrslan gat ekki farið fram í vor eins og áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Í Sæmundarhlíðinni er svo Geirmundur Valtýsson í syngjandi sveiflu á Geirmundarstöðum því hann fékk sér nýja Pöttinger sláttuvél af Novadisc 350 gerð með 3,5 metra vinnslubreidd. Nýja vélin leysir af eldri gerð af Pöttinger sláttuvél.

„Eins og sést á myndinni er Geirmundur líka mikill aðdáandi New Holland dráttarvéla sem hafa gert það virkilega gott hjá honum í áratugi,“ segir í annarri færslu á Facebooksíðu fyrirtækisins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir