Öruggur sigur Stólanna í æfingaleik gegn Sköllum

Dino átti flottan leik gegn Sköllunum. MYND: HJALTI ÁRNA
Dino átti flottan leik gegn Sköllunum. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastóll og Skallagrímur mættust í laufléttum æfingaleik í Síkinu í gærkvöldi. Bæði lið voru í þörf fyrir að stilla strengina fyrir lokaumferðirnar í Dominos-deildinni en lið Tindastóls hefur, eins og minnst hefur verið á, ekki verið að fara á kostum að undanförnu. Borgnesinar eru aftur á móti í bullandi fallbaráttu. Leikurinn var ágæt skemmtun en lið Tindastóls vann ansi öruggan sigur, 73-64, þar sem Dino Butorac glansaði.

Stólarnir tefldu fram PJ Alawoya en það varð nú fljótt ljóst að kappinn var kannski ekki alveg upp á sitt allra besta, enda nýlega kominn til liðs við hópinn. Lið Tindastóls náði ágætu forskoti í byrjun, Danero með þrist og síðan setti Dino niður tvo þrista með skömmu millibili. Hann átti eftir að halda þeim leik áfram í fyrri hálfleik. Stólarnir komust í 11-2 en gestirnir minnkuðu muninn í 11-9 en það voru heimamenn sem kláruðu leikhlutann betur og staðan 22-11 að honum loknum. Þessi munur hélst að mestu í öðrum leikhluta og enn fór Dino á kostum, setti niður fjóra þrista og staðan í hálfleik 41-30.

Gestirnir ógnuðu ekki forskoti Stólanna að neinu ráði í síðari hálfleik. Israel Martin rúllaði mannskapnum ágætlega en munurinn yfirleitt 10-15 stig. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 60-46 en mestur varð munurinn 23 stig í fjórða leikhluta. Skallagrímur gerði síðan ellefu síðustu stig leiksins þar sem Gabríel Máni sýndi fína takta og endaði stigahæstur gestanna með 15 stig. Í liði Tindastóls var Dino Butorac lang stigahæstur með 27 stig, þar af sjö þrista, en næstu honum var PJ Alawoya með 12 stig.

Um 250 manns mættu í Síkið til að berja liðin augum og skemmtu sér ágætlega. Leikurinn var kannski ekki þess eðlis að hægt sé að fullyrða um framfarir hjá Stólunum en menn virtust þó hafa gaman af því sem þeir voru að gera þó á köflum hafi verið augljóst að um æfingaleik var að ræða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir