Öryggistækjum stolið af Hafnarsvæðinu
Á hafnarsvæði Sauðárkróks eru staðsett björgunartæki, svo sem björgunarhringir, Markúsarnet, Björgvinsbelti og krókstjakar (mannhakar). Allur þessi búnaður er hafður þar af ákveðnum ástæðum, það er, að geta gripið til hans ef einhver fellur í höfnina. Ákveðin hámarkslengd má vera milli staðsetninga þessara hluta, þannig að aldrei þurfi að fara lengra en hundrað metra til að grípa til þeirra ef þörf krefur.
Nú hefur það gerst að tveimur af þessum öryggistækjum hefur verið stolið. Er þar um að ræða björgunarhring og Markúsarnet. Sá eða sú er þetta gerir, gerir sér enga grein fyrir því hversu alvarlegt þetta getur reynst. Þar getur skilið á milli feigs og ófeigs, því að ef ekkert er öryggistækið þegar á því þarf að halda getur björgun úr köldum sjó reynst örlagarík.
Hvetjum við nú þann sem tók þessa hluti, samvisku hans vegna, að skila þeim hið fyrsta og nægir honum að leggja þá fyrir framan dyr hafnarvarða í hafnarhúsinu.
Einnig hvetjum við þá sem hafa orðið varir við þessa hluti að láta hafnarverði vita í síma 861 3478.