Rausnarlegir Lionsmenn á Króknum

Frá fundi Lionsklúbbs Sauðárkróks á KK Restaurant í gærkvöldi. Mynd: PF.
Frá fundi Lionsklúbbs Sauðárkróks á KK Restaurant í gærkvöldi. Mynd: PF.

Gjafmildin var allsráðandi hjá félögum í Lionsklúbbi Sauðárkróks á fundi þeirra í gærkvöldi þegar afhentir voru þrír rausnarlegir styrkir til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, björgunarsveitanna í Skagafirði og Sóknarnefndar Sauðárkróks sem reyndist vera lokahnykkurinn í fjármögnun líkbíls fyrir kirkjusóknir héraðsins.

Fram kom á fundinum að Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki hafi lengi notið góðs af gjafmildi Lionsklúbbsins, sem lítur svo á að stofnunin sé eitt af þeim verkefnum sem standi þeim næst. Í gær var stofnuninni afhent að gjöf CADD Solis v4.1 lyfjadælu ásamt fylgihlutum að verðmæti kr. 405.073,-

Björgunarsveitirnar í Skagafirði hafa fyrir löngu sýnt og sannað mikilvægi sitt í samfélaginu og fyrir það þökkuðu klúbbsmenn í gær með fjórum Tetra stöðvum ásamt fylgihlutum að verðmæti kr. 1.448.184.

 

Mynd að ofan: Þórarinn Þórðarson, fv. gjaldkeri klúbbsins og Þorsteinn Guðmundsson, fulltrúi björgunarsveitanna. Neðri mynd: Atli Hjartarson, formaður Lionsklúbbs Sauðarkróks, og Björn Björnsson, fulltrúi sóknarnefndar Sauðárkrókskirkju. Myndir: PF.

Með einnar milljón króna peningagjöf til Sóknarnefndar Sauðárkróks var vendipunktur markaður vegna kaupa á nýjum líkbíl sem nefndin hefur stefnt á frá árinu 2019. Bíllinn er væntanlegur til landsins seinni partinn í maí og vonir standa til að bíllinn verði kominn í notkun um miðjan ágúst eftir að innréttingar sem nauðsynlegar eru fyrir líkbíl verða frá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir