Safnadagurinn er á sunnudaginn

Sunnudaginn 10. júlí, er íslenski safnadagurinn haldinn hátíðlegur um land allt og í tilefni hans er gestum boðið að skoða hin ýmsu söfn án endurgjalds. Á Norðurlandi vestra verður hægt að heimsækja gamla bæinn í Glaumbæ í Skagafirði, Minjahúsið á Sauðárkróki og Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi.

Milli klukkan 14 og 16 geta gestir sem koma í Glaumbæ fengið að sjá gömul handbrögð þegar sjálfboðaliðar fást við ýmis verk í baðstofu og búrum í bænum. Gömlu leikföngin verða dregin fram og farið í þrautir og leiki sem allir kunnu einu sinni. Í Minjahúsinu eru sýningarnar Gömlu verkstæðin sem er önnur af tveimur fastasýningum safnsins og svo Gersemar og gleðigjafar sem sett var upp fyrir skömmu en það eru sérsýningar þar sem kynntir eru þrír listamenn frá Sauðárkróki. Einnig eru merkilegir munir í eigu safnsins og fleira til sýnis.

Í Heimilisiðnaðarsafninu hefst sérstök dagskrá kl. 14.00  þar sem sýnt verður hvernig tekið var ofan af, kembt, spunnið og prjónað. Einnig sýndur margskonar útsaumur s.s. refilsaumur, harðangur og klaustur o.fl. Auk þess verður heklað og gimbað og slegið í vef og gefst gestum kostur á að spreyta sig á viðkomandi handbrögðum.

Íslenski safnadagurinn var fyrst haldinn árið 1997 að frumkvæði safnmanna sjálfra. Markmiðið með deginum er að benda á mikilvægi faglegrar varðveislu og miðlunar sameiginlegra verðmæta þjóðarinnar og þá einstöku leið til lifandi þekkingaröflunar og skemmtunar sem finna má á söfnum.

Fleiri fréttir