Samningar undirritaðir við Eðalbyggingar ehf. um gerð nýrrar viðbyggingar Ársala á Sauðárkróki

Í dag var undirritaður samningur við Eðalbyggingar ehf. (SG-Hús ehf.) um byggingu og hönnun séruppdrátta nýrrar viðbyggingar við leikskólann Ársali á Sauðárkróki. Aðaluppdrættir og verkefnastjórnun var unnið af Stoð ehf. verkfræðistofu fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð. Stefnt er á að taka fyrri áfanga hússins í notkun næsta vor.
Um er að ræða tveggja deilda einingu með tengingu við aðalhúsið við Árkíl. Að sögn Herdísar Sæmundardóttur, sviðsstjóra fjölskyldusviðs svf. Skagafjarðar, verður verkinu skipt upp í tvo áfanga og ráðgert að hægt verði að taka fyrri áfanga hússins í notkun í apríl nk.
Í þessum fyrri áfanga, sem nú er hafinn, er önnur deildin ásamt tengigangi byggð en gert er ráð fyrir að seinni deildinni síðsumars næsta ár. Jarðvinna er í fullum gangi en það eru Vinnuvélar Símonar sem sjá um hana.
„Með tilkomu þessarar byggingar verður hægt að anna eftirspurn eftir leikskólarými fyrir börn frá tólf mánaða aldri á Sauðárkróki. Eins og áður hefur komið fram er einnig gert ráð fyrir að viðbótarrými verði opnuð fljótlega á nýju ári í Varmahlíð og þá er verið að taka nýja leikskólabyggingu í notkun á Hofsósi,“ segir Herdís.
Steinn Leó Sveinsson, sviðstjóri veitu- og framkvæmdasviðs, fagnaði því að komið væri að undirritun samningsins og sagði um erfiða fæðingu hefði verið að ræða en vel hafi verið vandað til verksins og undirbúningurinn tekið langan tíma. Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri, tók undir með Steini og fagnaði tilkomu byggingarinnar og sagðist hlakka til að sjá hana rísa.