Samstarfssamningur um sýndarveruleika samþykktur

Aðalgata 21, áður en farið var í uppbyggingu húsanna sem hýsa á sýndarveruleikann.
Aðalgata 21, áður en farið var í uppbyggingu húsanna sem hýsa á sýndarveruleikann.

Tekist var á um samstarfssamning um uppbyggingu sýndarveruleikasýningar á Sauðárkróki á fundi sveitarstjórnar Sveitarfélagins Skagafjarðar í gær. Málið var áður á dagskrá á fundi sveitarstjórnar þann 21. mars 2018, en því frestað. Ingvi Jökull Logason forsvarsmaður Sýndarveruleika ehf. og Arnór Halldórsson hrl. komu á fund byggðarráðs fyrr í vikunni og fóru yfir samninga og bókanir vegna samstarfs um sýndarveruleikasýningu í Aðalgötu 21 á Sauðárkróki og í kjölfarið var samþykkt að vísa málinu til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Rækilega hefur fram komið að VG og óháð eru andvíg samningunum í núverandi mynd og var mikið um bókanir á sveitarstjórnarfundinum í gær. Bjarni Jónsson reið á vaðið og lagði það til f.h minnihlutans að sveitarstjórn samþykki að fela endurskoðanda sveitarfélagsins að leggja mat á áhrif samningsins og þeirra langtímaskuldbindinga sem hann felur í sér á rekstur og framkvæmdagetu sveitarfélagsins á samningstímanum.

Ólafur Bjarni Haraldsson , oddviti Byggðalistans,  lagði fram bókun í nafni minnihlutans sem vill að efnt verði til íbúakosninga sem fari fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna íbúakosningarinnar verði rafræn.

Stefán Vagn Stefánsson, Framsóknarflokki, taldi ástæðu til að rifja upp sögu samningsins í bókun meirihlutans enda saga hans löng innan sveitarfélagsins. Sagði hann að ávinningur sveitarfélagsins af verkefninu hafi  verið metinn af Deloitte og eru niðurstöður þess mats að Sveitarfélagið Skagafjörður mun hafa um 195 milljónir króna í hagnað af verkefninu á samningstímanum, sem er 30 ár. Gert er væri fyrir að tíu manns muni starfa hjá fyrirtækinu í upphafi og fjölga upp í 15 og jafnvel fleiri þegar fram líða stundir, gangi áætlanir eftir. Þar af verða tveir starfsmenn Sveitarfélagsins Skagafjarðar staðsettir í húsnæðinu þar sem upplýsingamiðstöð sveitarfélagsins á Sauðárkróki verður staðsett þar. Hann sagði það mat meirihluta sveitarstjórnar að mikil tækifæri fælist í verkefninu fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð.

Álfhildur Leifsdóttir, VG og óháð,  kvaddi sér hljóðs og kemur fram í bókun hennar og Bjarna Jónssonar að umfang og tímalengd skuldbindinga, ívilnana og fjárútláta er tengjast samstarfssamningi um uppbyggingu sýndarveruleikasýningar Sýndarveruleika ehf. og áhrif þeirra á rekstur og framkvæmdagetu sveitarfélagsins næstu 30 árin, vera fordæmalaust hjá sveitarfélagi á Íslandi. Sagði hún að þrátt fyrir breytingar á nokkrum atriðum í samnings drögum, eiga þeir fyrirvarar og gagnrýni sem VG og óháð hafa áður sett fram vegna málsins, bæði bréfleiðis og í bókunum í fundargerðir byggðaráðs, enn við í meginatriðum. Þá vill hún meina að enn hafi ekki verið unnin fagleg óháð úttekt á heildarskuldbindingum Sveitarfélagsins vegna Sýndarveruleika ehf. Minnisblað lögmanna sveitarfélagsins hjá Megin, sem unnu að sjálfri samningagerðinni og sáu um að svara fyrir hönd meirihlutans kærum og fyrirspurnum stjórnvaldsaðila, væri því ekki tækt.

Jóhanna Ey Harðardóttir, Byggðalista, lagði fram bókun þeirra Ólafs Bjarna Haraldssonar og taldi miður að tillögu Byggðalistans um íbúakosningu hefði verið hafnað. „Það er okkar mat að með því hefði fengist hvað mest sátt um málið, sem allir gætu unað við,“ sagði hún og tók fram að fulltrúar Byggðalistans myndu greiða atkvæði á móti því að samningurinn yrði samþykktur.

Fór svo að samningurinn var borinn upp til afgreiðslu og samþykktur með fimm atkvæðum gegn fjórum. Sjá nánar HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir