Sauðárkróksbakarí 140 ára

Róbert Óttarsson bakarameistari. Hann er ekki 140 ára en bakaríið er það. MYND: ÓAB
Róbert Óttarsson bakarameistari. Hann er ekki 140 ára en bakaríið er það. MYND: ÓAB

Í gær var haldið upp á þau tímamót í Sauðárkróksbakaríi að 140 ár eru liðin frá því að brauðgerð var sett á laggirnar á Sauðárkróki. Hefur verið bakað á Króknum óslitið síðan. Í tilefni dagsins var 30% afsláttur af öllu bakkelsi, brauði, kaffi, kæli- og gjafavöru í bakaríinu væna við Aðalgötuna. Bakarameistarinn Róbert Óttarsson var bljúgur þegar Feyki heyrði í honum í morgun en fjöldi fólks heimsótti bakaríið á afmælisdaginn og líf í tuskunum. Opnuviðtal er við Róbert í Feyki dagsins.

„Við teljum helstu sóknarfæri okkar liggja í því að þjónusta okkar viðskiptavini sem best og reyna að fylgja eftir tískubylgjum sem eru í gangi hverju sinni eftir fremsta megni,“ segir Róbert m.a. í viðtalinu aðspurður um sóknarfæri fyrir bakarí á landsbyggðinni.

Yfir sumartímann eru allt að 19 starfsmenn sem vinna í Sauðárkróksbakarí en stöðugildin eru kannski 10–11 yfir veturinn. Róbert og Selma Barðdal, kona hans, eignuðust bakaríið 1. september 2006 en Róbert hóf störf í bakaríinu árið 1990 og hefur verið þar síðan fyrir utan fimm námsár í Árósum.

Af hverju er bakarameistarinn stoltastur eftir 14 ár sem eigandi? „Sem eigandi að bakaríinu þá er ég stoltastur af því að geta skapað þau störf sem raun ber vitni. Ég er stoltur af því fólki sem starfað hefur með okkur í gegnum árin og unnið að því að gera fyritækið að því sem það er í dag. Einnig er ég stoltur af þeirri tryggð sem viðskiptavinir okkar hafa sýnt okkur allt tíð, sem gerir það að verkum að bakaríð hefur getað starfað samfleitt í öll þessi ár,“ segir Róbert

Feykir óskar Sauðárkróksbakaríi til hamingju með áfangann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir