Segir glitta í hótanir ráðherra í garð Skagfirðinga
Sigurjón Þórðarson birtir á bloggsíðu sinni grein þar sem hann vitnar í bréf sem Guðbjartur Hannesson, velferðaráðherra sendi Hollvinasamtökum heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki sl. föstudagskvöld. Í bréfinu tjáir Guðbjartur sig um áhyggjur sínar vegna þess að stofnunin á Sauðárkrók sé eina stofnunin sem ekki hafi sent tillögur eða viðbrögð vegna tillagna um niðurskurð á fjárlögum ársins 2011.
Segir Sigurjón að ráðherra fullyrði ranglega í bréfi sínu að á umliðnum árum hafi verið farið í flatan niðurskurð á heilbrigðiskerfinu og að ekki hafi komið fram neinar tillögur eða hugmyndir að niðurskurði hjá heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki.
„Staðreyndin er sú að Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki mátti þola tvöfalt meiri niðurskurð á yfirstandandi ári en almennt var hjá heilbrigðisstofnunum landsins. Framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar hefur þegar gert grein fyrir sínum sparnaðartillögum. Sömuleiðis óskaði sveitarstjórn Skagafjarðar þann 4. október eftir fundi með ráðherra þar sem farið yrði yfir málefni Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki. Ráðherra hefur ekki enn séð sér fært að hitta sveitarstjórnina þrátt fyrir að hann kvarti þegar færi gefst yfir því að fá engar tillögur og ráð!“ segir Sigurjón
„Fátt hefur verið um svör hjá stjórnvöldum en Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra Samfylkingarinnar hafði sig þó í það að skrifa Hollvinasamtökum Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki stórundarleg skilaboð þar sem ekki aðeins birtast rangfærslur heldur má einnig sjá glitta í hótanir í garð Skagfirðinga.“
Í bréfi sínu til Hollvinasamtakanna varpar Guðbjartur fram eftirfarandi spurningum; „Á ég að líta svo á að engar nýjar tillögur séu staðfesting á að þetta megi vera eins og fjárlög gera ráð fyrir???? Er hin endanlega og varanlega lausn fundin í Skagafirði, einum staða?“
Sigurjón heldur áfram; „Það er rétt að taka það fram að sú „lausn“ sem Guðbjartur er að tala um fyrir Skagfirðinga er að rústa stofnuninni með 30% niðurskurði. Mér finnst vinnubrögð og svör þingmannsins og ráðherra ekki sæmandi gagnvart umbjóðendum sínum sérstaklega í ljósi þess að í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga gaf hann út hátíðleg loforð um að gæta sérstaklega að jafnvægis á milli Höfuðborgar og landsbyggðar.“