Sex héraðsdýralæknar ráðnir til starfa hjá Matvælastofnun

Gengið hefur verið frá ráðningu í allar sex stöður héraðsdýralækna sem verða til með breyttri umdæmaskipan frá og með 1. nóvember nk. Egill Þorri Steingrímsson verður Héraðsdýralæknir í Norðvesturumdæmi, en hann hefur gegnt stöðu héraðsdýralæknis í Austur-Húnaþingsumdæmi.

 

Breytingar eru gerðar með það að markmiði að koma í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra með því að aðskilja opinbert eftirlit héraðsdýralækna frá almennri dýralæknaþjónustu og um leið mun hið opinbera veita stuðning til dýralækna sem starfa munu við dýralæknaþjónustu í hinum dreifðari byggðum.

Birt hefur verið reglugerð nr. 846/2011 um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum en henni er ætlað að tryggja dýraeigendum nauðsynlega almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu við dýr á landsvæðum þar sem fjöldi dýra er takmarkaður og/eða verkefni dýralækna eru af skornum skammti. Samkvæmt reglugerðinni getur Matvælastofnun gert þjónustusamning við sjálfstætt starfandi dýralækna, sem munu þá hafa starfsstöð og sinna dýralæknaþjónustu á tilteknum þjónustusvæðum, sem tilgreind eru í reglugerðinni.

•Héraðsdýralæknir í Suðvesturumdæmi verður Gunnar Örn Guðmundsson en hann hefur gegnt stöðu héraðsdýralæknis í Gullbringu- og Kjósarumdæmi.

•Héraðsdýralæknir í Vesturumdæmi verður Flora-Josephine Hagen Liste, en hún hefur ásamt Hjalta Viðarsyni gegnt starfi héraðsdýralæknis í Dalaumdæmi.

•Héraðsdýralæknir í Norðvesturumdæmi verður Egill Þorri Steingrímsson, en hann hefur gegnt stöðu héraðsdýralæknis í Austur-Húnaþingsumdæmi.

•Héraðsdýralæknir í Norðausturumdæmi verður Ólafur Jónsson, en hann hefur gegnt stöðu héraðsdýralæknis í Skagafjarðar- og Eyjafjarðarumdæmi.

•Héraðsdýralæknir í Austurumdæmi  verður Hjörtur Magnason, en hann hefur gegnt stöðu héraðsdýralæknis í Austurlandsumdæmi nyrðra.

•Héraðsdýralæknir í Suðurumdæmi  verður Gunnar Þorkelsson, hann hefur gegnt stöðu héraðsdýralæknis í Vestur-Skaftafellsumdæmi.

Fleiri fréttir