Síðari úthlutun NORA á árinu 2010

Á fundi sínum í desember ákvað framkvæmdastjórn NORA að styrkja fjögur verkefni. Að þessu sinni bárust 25 umsóknir, sem er umtalsvert færra en við fyrri úthlutun þar sem umsóknir voru 42 talsins. Hólaskóli og Matís meðal styrkþega.

Af þessum 25 umsóknum voru íslenskir aðilar að 23 og Íslendingar taka þátt í öllum þeim verkefnum sem hljóta styrk og leiða eitt þeirra. Til úthlutunar voru rúmar 1,2 milljónir danskra króna, eða tæpar 25 m.kr. íslenskra.

Verkefnin sem styrk hlutu að þessu sinni eru: Fiskeldi til framtíðar. Greining á land-eldisstöðvum og árangri þeirra með það í huga að þróa nýja "kynslóð" eldisstöðva á landi (fyrir lax- og bleikjueldi). Noregur leiðir verkefnið, en íslenskir þátttakendur eru Hólaskóli, Matís og Íslensk matorka.

Sjávarútvegstengd ferðaþjónusta. Úttekt á gildandi reglum sem snerta þessa grein ferðaþjónustu og yfirlit yfir greinina. Noregur leiðir þetta verkefni, en íslenskur þátttakandi er Þróunar- og rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri.

El-mobility, tilraunaverkefni, prófun rafbíla. Reynsluakstur á að vera á Íslandi og Grænlandi. Nýorka leiðir þetta verkefni, en aðrir íslenskir þátttakendur eru Orkustofnun og Orkusetur.

Öryggi á hafinu. Kortleggja á björgunarstarf á hafi á Norður-Atlantssvæðinu, efla samstarf og þekkingaryfirfærslu. Íhuga viðbrögð við aukinni skipaumferð um Norður-Íshaf. Skipuleggja björgunarstarf á hafinu og bæta það. Noregur leiðir verkefnið, en íslenskir þátttakendur eru Landhelgisgæslan og Siglingastofnun.

Fleiri fréttir