Sjávarleður skiptir við helstu hönnunarfyrirtæki heims

Fyrirtækið Sjávarleður hefur notið góðs af þeim meðbyr sem leður og loð hefur verið innan tískugeirans undanfarin misseri. Samkvæmt Gunnsteini Björnssyni framkvæmdarstjóra fyrirtækisins er merkið mjög þekkt í leðurbransanum og leiðandi í framleiðslu á sjávarleðri.

Fyrirtækið var á leðursýningunni Le Cuir a Paris dagana 20.-22. september en þangað sækja aðilar frá öllum helstu hönnunarmerkjum heims til að panta efni framleiðslu sína. Sjávarleður, eða Atlantic Leather eins og það er betur þekkt undir utan landssteinana kynnti þar framleiðslu fyrirtækisins við mjög góðar undirtektir.

„Við vorum með einn mest sótta básinn á sýningunni, það var alveg brjálað að gera allan tímann! Við fengum helling af pöntunum, þannig það verður mjög mikið að gera framundan,“ sagði Gunnsteinn. Atlantic Leather er með afar breiðan hóp kúnna og meðal þeirra eru þekkt nöfn eins og Nike, Gucci, Salvatore Ferragamo, Alexander Wang, Diesel, Calvin Klein, Dior, „það er lengi hægt að telja áfram, þau hafa öll einhvern tímann keypt af okkur,“ útskýrir Gunnsteinn.

Mikið að gera á öllum vígstöðvum

Það sem af er ári hefur verið 120% aukning á sölu hjá fyrirtækinu frá því á sama tíma í fyrra. Nú er allt á fullu í húsakynnum fyrirtækisins, þar sem verið er að salta gærur frá morgni til kvölds, sem berast úr sláturhúsunum.  Í kringum Gestastofu Sútarans hefur verið heilmikill ferðamannastraumur þar sem rútufarmar af fólki hefur sett krók á leið sína og til að heimsækja hana. Í sumar er áætlað að um 8-9000 manns hafi komið á Gestastofuna, án þess að nákvæmar tölur hafa verið teknar saman.

Ítarlegt viðtal við Gunnstein má lesa í nýjasta eintaki Feykis, fréttablaði Norðurlands vestra.

 

 

Fleiri fréttir