Skora á Svandísi að endurskoða skerðingu strandveiðikvóta

Frá smábátahöfninni á Sauðárkróki. Mynd: PF.
Frá smábátahöfninni á Sauðárkróki. Mynd: PF.

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra, að endurskoða ákvörðun sína um skerðingu heildarafla til strandveiða á komandi sumri. Í fundargerð ráðsins frá því í gær segir að í því sambandi mætti t.a.m. horfa til fyrirsjáanlegs svigrúms sem skapast mun á skiptimarkaði í öðrum fiskitegundum og nýta það til aukningar heildarafla strandveiða.

„Þannig er unnt að styðja við það mikilvæga byggðamál sem strandveiðar eru, án þess að gengið sé gegn vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem miðar að sjálfbærri nýtingu fiskistofnanna við Ísland,“ segir í fundargerðinni.

Einnig kemur fram að Byggðarráð telji að sú stefna sem mótuð var fyrir fjórum árum um að heimila strandveiðar í tólf daga á mánuði, alls 48 daga á sumri hafi reynst afar skynsamleg. „Þannig náðist hvoru tveggja; að eyða hættulegum keppnisþætti veiðanna og að tryggja að mestu jafnræði milli veiðisvæða allt í kringum landið.“

Fleiri fréttir