Sláttur hófst í Skagafirði í vikunni

Verið að binda á Gili en myndin er fengin af FB síðu Ómars bónda.
Verið að binda á Gili en myndin er fengin af FB síðu Ómars bónda.

Bændur í Skagafirði hafa tengt heyvinnuvélar við dráttarvélarnar og farnir að heyja örlítið. Þeir bændur sem Feykir náði tali af vildu ekki kalla það svo, að heyskapur væri byrjaður heldur væri um að ræða þrif á túnum.

Páll Árni Guðmundsson bústjóri í Útvík sló sl. miðvikudag 29. maí og sagði það tilraunaslátt. Hann hafi þurft að hreinsa blettina sem slegnir voru og einnig hefði hann verið að prófa vélarnar til að allt verði tilbúið og klárt áður en hinn eiginlegi heyskapur byrji fyrir alvöru sem hann telur verða eftir viku tíu daga. Færi það eftir hitastiginu en lítið gerðist nú í kuldanum.

Frændi Páls, Ómar Björn Jensson á Gili, sló einnig sama dag og sagði hann vera í smá tilraunaverkefni með Steinullarverksmiðjunni. Líkt og hjá Páli þurfti að hreinsa hólfið en í hans tilfelli mátti ekki þurrka neitt þar sem grasið verður notað í moltugerð. „Það er spurning hvort hægt sé að kalla það að ég sé byrjaður að heyja. Ég vil gefa því svona viku en þetta var samt lygilega mikið, 21 rúlla af tveimur hekturum,“ sagði Ómar. Hann telur þó að menn fari að slá montblettina sína eitthvað fyrr og hlær við.

Í Blönduhlíð mátti einnig sjá tún slegin á þriðjudag en Feyki er ekki kunnugt um að sláttur hafi hafist jafn snemma og nú í héraðinu sem þakka má einstaklega góðu vori. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir