Snjólaug og Jón skotíþróttafólk ársins hjá Markviss

Jón B. Kristjánsson og Snjólaug M. Jónsdóttir sköruðu fram úr hjá Skotfélaginu Markviss á árinu 2019. Aðsendar myndir.
Jón B. Kristjánsson og Snjólaug M. Jónsdóttir sköruðu fram úr hjá Skotfélaginu Markviss á árinu 2019. Aðsendar myndir.

Skotfélagið Markviss á Blönduósi valdi á dögunum skotíþróttafólk ársins en það voru þeir sem náðu bestum árangri á árinu sem er að líða. Fyrir valinu urðu þau Snjólaug M. Jónsdóttir, fyrir árangur í haglagreinum, og Jón B. Kristjánsson, fyrir árangur í kúlugreinum. Þá hafa þau bæði starfað ötullega fyrir Markviss og verið öflug í umhverfismálum sem og við uppbyggingu á æfingasvæði félagsins.

Í tilkynningu frá Markviss segir að Snjólaug hafi byrjað keppnistímabilið á æfingaferð til Danmerkur í apríl þar sem hún æfði í nokkra daga hjá KFK í Kaupmannahöfn þar sem hún tók þátt í móti og hafnað í 8. sæti. Hér heima keppti Snjólaug á samtals sex mótum Skotíþróttasambandsins í þremur greinum þ.e. Ólympísku Skeet, Norrænu Trappi og Compak Sporting.

„Hún vann tvo Íslandsmeistaratitla í Ólympísku Skeet ásamt því að jafna Íslandsmet kvenna í úrslitum. Snjólaug varði Íslandsmeistaratitilinn í þessari grein annað árið í röð. Þá varð hún einnig Norðurlandsmeistari kvenna í greininni.

Snjólaug vann einnig Íslandsmeistaratitil í kvennaflokki í Norrænu Trappi þriðja árið í röð en Íslandsmótið fór fram á skotsvæði Skotíþróttafélags Hafnarfjarðar að þessu sinni.

Þá náði hún góðum árangri í Compak Sporting, vann  landsmót á Akureyri í júní og varð í öðru sæti á landsmóti í júlí, einnig á Akureyri. Snjólaug hafnaði svo í þriðja sæti á Íslandsmeistaramótinu sem fram fór í Reykjavík í ágúst.

Snjólaug sinnti margvíslegum störfum fyrir Skotf. Markviss á árinu sem er að líða, leysti af sem þjálfari á nýliðaæfingum og vann ötullega að umhverfismálum á skotsvæði félagsins svo eitthvað sé nefnt.“

Um Jón B. Kristjánsson segir að hann hafi keppt á 16 mótum á árinu og varð alls þrettán sinnum í verðlaunasæti, þar af hafi hann hampað sigri á fjórum mótum, hafnað fimm sinnum í öðru sæti og fjórum sinnum í því þriðja. Helstu keppnisgreinar Jóns eru BR50 (.22LR skotið á 50m færi) og VFS (Varmint for score, stærri rifflar á 100/200m færum).

„Í BR50 var í fyrsta sinn keppt með flokkaskiptingu á árinu og náði Jón þar afbragðs árangri, vann tvö mót og hafnaði í öðru sæti í öðrum tveimur. Að auki náði hann fjórða sæti á Akureyrarmeistaramóti sem fram fór í ágúst. Þá hafnaði hann í fjórða sæti á Íslandsmótinu í BR50 bæði í „Sporter“ og „Heavy Varmint“ flokkum.

Í VFS mótum keppti Jón í Heavy Varmint flokki og varð í öðru sæti til Skaustmeistara, náði þriðja sæti í Akureyrarmeistaramóti og varð fjórði til Íslandsmeistara á sínum persónulega besta árangri í þessari grein.

Auk þess keppti Jón á ýmis konar öðrum riffilmótum vítt og breitt um landið og var meðal annars í verðlaunasæti á öllum VFS riffilmótum Skotfélags Ólafsfjarðar og þriðji til Ólafsfjarðarmeistara, varð í öðru sæti á VFS sumarmóti Skotfélags Akureyrar í flokki óbreyttra riffla og þriðja sæti í .22LR flokki á 17. júní móti Skotf. Skotgrund.

Þá hefur Jón starfað ötullega fyrir Markviss, setið í stjórn um árabil, síðustu tvö árin sem formaður félagsins, komið að mótahaldi sem mótstjóri og starfsmaður, sinnt nýliðaþjálfun og æfingastjórn í riffilgreinum, umsjón og dómgæslu fyrir hönd Markviss í hreindýraskotprófum UST, auk vinnu við uppbyggingu á æfingasvæði Markviss.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir