Snjórinn hleðst upp í Tindastól
Nú hleðst snjórinn upp á skíðasvæðinu í Tindastóli þar sem allar snjóframleiðsluvélar skíðadeildar Tindastóls eru keyrðar á fullum afköstum. -Opnum innan skamms ef það snjóar sæmilega á næstunni, segir Viggó Jónsson staðarhaldari.
Síðasta vetur var snjór framleiddur í fyrsta skiptið í Tindastólnum og kom það vel út að sögn Viggós en framleiddur snjór er fimm sinnum lengur að bráðna heldur en sá er kemur af himni ofan og því minni hætta á að hann hverfi þó einhverjir hlýindakaflar komi í vetur. Nú er verið að safna í sarpinn og gott að framleiða mikinn snjó, segir Viggó sem bíður spenntur eftir vetrinum og vonar að strax byrji að snjóa af krafti svo hægt verði að slá fyrra met hvað opnun varðar en sú dagsetning er 31.október.