Sparisjóðurinn styrkir Sögusetur íslenska hestsins
Á Laufskálaréttardaginn 24. september sl. færði Sparisjóður Skagafjarðar Sögusetri íslenska hestsins veglegan styrk að upphæð 1,5 m.kr. Fór afhendingin fram í afréttarlandi Kolbeinsdals en á sömu slóðum fyrir liðlega hundrað árum var Sparisjóðurinn fluttur á hesti þaðan þar sem hann var stofnaður og niður í Hjaltadal.
Það má segja að stemningin við afhendinguna hafi verið við hæfi íslenska hestsins þar sem afréttarstóð úr Kolbeinsdal rann hjá á leið sinni til réttar ásamt fjölda gesta sem tekur þátt í þeirri smalamennsku að tilstuðlan íslenska hestsins.
Það var Arna Björg Bjarnadóttir sem tók við styrknum úr höndum Sigurbjörns Bogasonar útibústjóra Sparisjóðsins og Kristjáns Snorrasonar markaðsstjóra sem mættir voru í dalinn þó ekki ríðandi. Arna þakkaði höfðinglegan styrk og sagði hann koma sér afskaplega vel, nú þegar þrengir að, við uppbyggingu setursins sem nýtur mikilla vinsælda meðal ferðafólks. Á setrinu starfa yfir vetrarmánuðina 1-2 en á sumrin allt að sex manns. Kristján sagði við þetta tækifæri að það væri mikilvægt fyrir Sparisjóðinn að fylgjast með því sem vel væri gert í Skagafirði og styðja við góð málefni og það væri ánægjulegt nú að styðja Sögusetrið þar sem vagga hestamennskunnar væri í Skagafirði.