Stuttbuxnagöngur í Deildardal - Hjalti Þórðarson skrifar

Hjalti Þórðarson rifjar upp göngur sem hann tók þátt í fyrir áratug. Aðsendar myndir.
Hjalti Þórðarson rifjar upp göngur sem hann tók þátt í fyrir áratug. Aðsendar myndir.

Göngur eru skemmtilegur hluti sveitastarfa og árið 2010 voru verulega eftirminnilegar göngur sem hægt er með góðu móti að kalla hitagöngurnar miklu. Þessar línur voru páraðar á blað í minnispunktum um Meira og minna sannar gangnasögur....... Ég rölti um á fjallsbrúninni austan við Austurdalinn og var staddur við Seljaskál. Taldi mig vera í nokkuð góðum málum og búinn að fæla flest fé af brúninni og niður í kletta þar undir. Í miðri ánægju minni heyrðust hávær hróp og köll sem færðust heldur nær ef eitthvað var. Síðan kom hópur af fé hlaupandi upp á brúnina og viti menn var ekki hraðfetinn hann Magnús Jóhannesson frá Brekkukoti rétt á eftir þeim. Sá ég í fjarlægð að Magnús var saltvondur og veifaði öllum skönkum þvílíkt að ætla mátti að hann tækist á loft á hverju augnabliki. Í framhaldinu náðum við að þvæla rollunum niður af brúninni og Magnús á eftir og á hálfri meiri ferð en áður.

Nú skyldu rollurnar fara til byggða og ekkert múður. Ég hélt áfram en eftir nokkur skref birtist hópur af rollum á ný og heldur þrjóskulegar á svipinn. Miðað við atferli, hegðun og framkomu virtust þær ekki líklegar til að fara til byggða alveg strax. Ég ætlaði nú heldur að sýna viðbragð og þjóta fyrir þær en ekki tókst betur til en svo að annar klunnafóturinn rakst í hinn og ég steyptist beint á höfuðið. Ég sá ekki betur en rollunum þætti þetta bráðfyndið, a.m.k. glottu þær við tönn, ulluðu á mig og þutu út í buskann. Ég klöngraðist á fætur, hristi hausinn svo að glamraði í tómarúminu og æddi á eftir hópnum. Nokkru seinna náðist eitthvað af hópnum og eitthvað slapp. Það sem hindraði að allar rollurnar slyppu var stórstígur maður sem leið áfram eins og hraðfara snigill á sterum. Sá ég að þetta var langfetinn Rúnar Páll Hreinsson á Grindum sem fór heldur geyst yfir auðnina á fjallinu eflaust flautandi einhvern lagstúf í leiðinni.

Séð inn Austurdal sem er annar tveggja dala sem tekur við af Deildardal í Skagafirði austanverðum. Hinn dalurinn heitir eðlilega Vesturdalur en á milli þeirra er Tungufjall, hátt og hvasst eins og fleygur. Um dalinn rennur Deildará, sem breytir um nafn er neðar kemur og heitir þá Grafará. Í botni dalsins er Deildardalsjökull.

Séð inn Austurdal sem er annar tveggja dala sem tekur við af Deildardal í Skagafirði austanverðum. Hinn dalurinn heitir eðlilega Vesturdalur en á milli þeirra er Tungufjall, hátt og hvasst eins og fleygur. Um dalinn rennur Deildará, sem breytir um nafn er neðar kemur og heitir þá Grafará. Í botni dalsins er Deildardalsjökull.

Um síðir fóru rollurnar rétta leið, óðu niður Brunnárdalinn og þaðan niður utan við Selhóla í flasið á smalamönnum sem þar voru. Þegar ég stóð upp á svokallaðri Ófæruhyrnu, við hlið Brunnárdals, og horfði á eftir fjárhópnum niður dalinn þá rifjaðist upp fyrir mér göngutúr árið áður með þeim Páli Óskarssyni á Skuggabjörgum og Kristjáni Jónssyni frá Óslandi. Þá var stoppað á sama stað og teknar umræður um hve mikið af fé slyppi í hverjum göngum og héldi sig ofan brúna. Umræðurnar báru nokkurn keim af orðatiltækinu „til hvers að vera ósammála ef hægt er að vera sammála“ með öfugum formerkjum. Nánast í túngróðri vildi Páll meina en Kristján taldi landið óttalegt grjót, fleiri tugir vildi Páll meina en Kristján taldi þær örfáar, flestar úr Óslandshlíðinni vildi Páll meina en Kristján taldi þær úr Deildardalnum, meiri blessuð blíðan vildi Páll meina en Kristján taldi vera of hlýtt.

Þegar dagdraumunum lauk skakklappaðist ég niður á láglendi og hitti á kampakátan, já vel kátan, Loft Guðmundsson á Melstað sem taldi að flestar skjáturnar væru komnar í aðalsafnið en reksturinn gengi ákaflega seint í þessum hita. Nú var mesta erfiðið að baki enda var ég hálfþreyttur og verulega þyrstur. Ekki slæmt að ég hafði vit á því að geyma tvo vel kælda í læk stutt frá..... .

Dagarnir 2.-5. september 2010 voru veðurlega alveg einstakir. Logn, sólskin og um og yfir 20 stiga hiti dag eftir dag. Á veðurathugunarstöðinni á Möðruvöllum í Hörgárdal fór hitinn í 24,9 stig gangnadaginn 4. sept. Það voru því ekki vandræði að vera á stuttbuxum í göngum daginn þann.
/Hjalti Þórðarson

Áður birst í 33. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir