Styttist í að markmið um leikskólarými fyrir börn frá 12 mánaða aldri náist í Skagafirði

Ársalir á Sauðárkróki. MYND: PF
Ársalir á Sauðárkróki. MYND: PF

Í frétt á heimasíðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar sagði frá því nú fyrir jólin að á síðustu misserum hefur óskum eftir leikskóladvöl barna frá 12 mánaða aldri fjölgað umtalsvert. Það á ekki ekki bara við í Skagafirði heldur um land allt. Svf. Skagafjörður hefur unnið að því að koma til móts við óskir um leikskólarými fyrir börn frá 12 mánaða aldri og segir í fréttinni að nú hilli undir að það markmið sé að verða að veruleika.

Bent er á að umræða um skort á leikskólarýmum hafi verið talsvert fyrirferðamikil og ljóst að sveitarfélög séu misvel í stakk búin til að mæta óskum foreldra. Með lengingu fæðingar- og foreldraorlofs úr níumánuðum í tólf mánuði sé mikilvægt að skapa samfellu í umönnun barna og áhersla því lögð á að leikskólar standi öllum börnum til boða við 12 mánaða aldur.

Í þessum rituðum orðum er verið að taka í notkun nýja leikskólabyggingu á Hofsósi. Leikskólinn er byggður sem sjálfstæð bygging í tengslum við grunnskólann. Þá er unnið að hönnun nýs íþróttahúss sem jafnframt mun tengjast grunnskólanum. Með þessum framkvæmdum verður allt skólastarf á sama stað með tilheyrandi auknu hagræði og möguleikum til samþættingar og samvinnu. Á Sauðárkróki er vinna við byggingu tveggja nýrra deilda hafin við Ársali, eldra stig. Ráðgert er að fyrri áfangi þeirrar byggingar verði tekinn í notkun í mars nk. Með tilkomu þessarar byggingar verður hægt að anna eftirspurn eftir leikskólarými fyrir börn frá 12 mánaða aldri. Í upphafi nýs árs 2022 verður ný deild tekin í notkun í Varmahlíð. Sú deild verður í sama húsi og yngstu barna deildin er nú, eða í gamla pósthúsinu eins og kallað er. Samhliða er unnið að framtíðaruppbyggingu leik- og grunnskóla í Varmahlíð enda þetta húsnæði einungis hugsað til bráðabirgða.

Með þessum framkvæmdum verður hægt að anna inntöku barna í leikskóla í Skagafirði við 12 mánaða aldur. Fullyrða má að Sveitarfélagið Skagafjörður skapi sér sterkan sess meðal sveitarfélaga hvað þetta varðar og standi afar vel að vígi í þjónustu við barnafólk,“ segir í fréttinni.

 

 

Fleiri fréttir