Svæðisleiðsögunám á Norðurlandi

Símenntun Háskólans á Akureyri býður upp á Svæðisleiðsögunám á Norðurlandi í samvinnu við Leiðsöguskólann í MK og SBA- Norðurleið. Námið er alls 22 einingar og fer kennsla fram við Háskólann á Akureyri.

Námið verður einnig í boði í fjarkennslu á starfssvæði Þekkingarnets Þingeyinga og Farskólans-miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra .

Leiðsögunám miðar að því að þjálfa færni og hæfni nemenda til þess að standast kröfur ferðaþjónustunnar hverju sinni um áreiðanleika og fagleg vinnubrögð. Þetta nám á að veita nemendum sérmenntun á sviði svæðisleiðsagnar um Norðurland.

Svæðisleiðsögunámið er fjölbreytt. Fjallað er um jarðfræði Íslands, sögu, menningu, gróður, dýralíf, atvinnuvegi, íslenskt samfélag, bókmenntir og listir. Nemendur eru fræddir um helstu ferðamannastaði á Norðurlandi, ferðamannaleiðir og leiðsögutækni.

Að náminu koma fjölmargir kennara, bæði á háskólastigi og framhaldskólastigi, ásamt leiðsögumönnum, ferðaþjónustuaðilum og fagfólki.

Skipulag náms

Markmið leiðsögunáms er að búa nemendur undir það að fylgja ferðamönnum um Norðurland. Námið er 22. einingar og skiptist niður á tvær annir, vorönn og haustönn 2011. Áætlað er að kennsla hefjist um miðjan febrúar og ljúki í byrjun desember 2011. Gerð er ráð fyrir að kennsla fari fram einn seinnipart í hverri viku, þriðjudagar frá kl 16:30 til 21:10 eða 21:50. Farnar verða u.þ.b 5- 6 vettvangsferðir á hvorri önn, oftast á laugardögum.

Námsmat

Námið byggir á námskrá fyrir leiðsögunám sem gefin var út af Menntamálaráðuneytinu árið 2004. Námsmatið byggir á skriflegum og/eða munnlegum verkefnum og prófum. Nemendur þurfa að fá a.m.k. sjö af tíu í einkunn í öllum greinum. Gert er ráð fyrir að nemendur mæti í allar vettvangs- og æfingaferðir.

Inntökuskilyrði

Umsækjendur þurfa að vera orðnir 21. árs við upphaf námsins. Þeir skulu hafa stúdentspróf eða sambærilegt nám, ásamt því að hafa mjög gott vald á einu erlendu tungumáli og íslensku. Nemendur þurfa að standast munnlegt inntökupróf í því tungumáli sem þeir hyggjast leiðsegja á. Nemendur gangast undir inntökupróf í einu erlendu tungumáli, og íslensku ef ástæða þykir til. Áætlað er að inntökupróf fari fram síðustu vikuna í janúar. Vakin er sérstök athygli á því að leiðsögumenn með réttindi geta setið staka áfanga í náminu. Að námi loknu fá nemendur réttindi til að starfa sem svæðisleiðsögumenn á Norðurlandi.

Fleiri fréttir