Svartuggar á metsölulista!

Gísli Þór Ólafsson. Mynd: Guðríður Helga Tryggvadóttir.
Gísli Þór Ólafsson. Mynd: Guðríður Helga Tryggvadóttir.

Nýverið kom út ljóðabókin Svartuggar eftir Gísla Þór Ólafsson. Sala á bókinni fór vel af stað, en hún fór beint í 5. sæti á metsölulista í verslunum Eymundsson og var á listanum í tvær vikur.

Bókin er skrifuð út frá heimildum um fiska, útliti þeirra og atferli og eru flest nöfn ljóðanna dregin af raunverulegum, en jafnframt óvenjulegum fiskiheitum. Má í því samhengi nefna heiti eins og Skrápflúra, Tunglfiskur, Marsilfri, Fuðriskill (Íshavskrutt á færeysku) og Brislingur. Hefðbundnari fiskar koma einnig við sögu, eins og Sverðfiskar, Krossfiskar og Flugfiskar.

Líf fiskanna er svo speglað við líf manneskjunnar og þeirra ýmsu skrykkjóttu leiða sem lífið hefur uppá að bjóða. Ljóðin þróuðust því úr almennri rannsóknar- og heimildavinnu, yfir í persónulegri þanka höfundar. Líkt og í fyrri bókum Gísla er þó aldrei langt í spaugið.

Mynd á kápu bókarinnar: Ásgerður Arnar.

Í undirbálki kanínufiska
Kanínufiskar hoppa uppúr sturtunni þar sem þú áður settir stíflueyðinn
brúnleitir með bláleitar rákir
og gadda
gadda!
ég er pínu hræddur – kvíðinn
eða á bilinu 6 – 9

               hræddur – kvíðinn
hvassir gaddar á innanverðum og utanverðum kviðuggunum
hvassir gaddar
þessir gaddar, sem stungu mig líkt og ég hafi hellt stíflueyðinum á gólfið
og skúrað svo uppúr honum
elskan mín, geturðu teiknað fyrir mig mynd af kanínufiski?

Svartuggar er 7. ljóðabók Gísla, en hans fyrsta, Harmonikkublús kom út árið 2006. Gísli hefur einnig gefið út geisladiska undir nafninu Gillon og eru þeir tveir fyrstu, Næturgárun (2012) og Bláar raddir (lög við ljóð Geirlaugs Magnússonar, 2013) núna fáanlegir á Spotify.

https://open.spotify.com/album/4WcIJXEmbtLMci50Wpu6KV?si=Z404VDdxSzeJEubCB7u1lQ 
https://open.spotify.com/album/7uYpu31ZYZ3va2hfYj5yhG?si=ZDT4oiIdToGy3K_htUpTYQ

Í haust kom einnig út lítil 7“ tveggja laga smáskífa á vínyl, með lögunum Blindaður af ást og Andrési Önd. Var smáskífan gefin út í afar takmörkuðu upplagi. 
Fyrirhugað er að gefa diska Gísla út á vínylformi, en auk hinna tveggja fyrrnefndu hafa komið út Ýlfur (2014) og Gillon (2016). Voru þeir allir teknir upp af Sigfúsi Arnari Benediktssyni í Stúdíó Benmen á Sauðárkróki.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir