Sveinn Guðmundsson gerður heiðursfélagi LH
Sveinn Guðmundsson frá Sauðárkróki var heiðraður á Uppskeruhátíð hestamanna síðastliðinn laugardag fyrir störf sín í þágu íslenska hestsins og var sæmdur heiðursverðlaunum Landssambands hestamannafélaga árið 2010.
Á vef LH segir að ræktun Sveins hafi markað djúp spor í ræktun íslenska hestsins og á hann stóran þátt í þeim framförum sem orðið hafa í íslenskri hrossarækt. Sveinn hefur í rúma hálfa öld verið í fremstu röð hrossaræktenda en eins og flestir vita sýndi Sveinn hina frægu Ragnars-Brúnku árið 1954 sem síðar varð stofnhryssa í ræktun Sveins. Afkvæmi hennar og afkomendur þeirra hafa skilað mörgum gæðingum sem ræktaðir hafa verið frá Sauðárkróks-Hestum sem er ræktunarnafn fjölskyldunnar í dag.
Feykir óskar Sveini Guðmundssyni innilega til hamingju með heiðursverðlaunin.