Sýndar-alvara Hreins Guðvarðarsonar komin út

Alvörusvipur fer öllum best/
þá ævinnar genginn er vegur./
En alvörusvipur er eins og flest/
assgoti teygjanlegur. /HG.
Mynd: PF.
Alvörusvipur fer öllum best/ þá ævinnar genginn er vegur./ En alvörusvipur er eins og flest/ assgoti teygjanlegur. /HG. Mynd: PF.

Út er komið ljóðakver Hreins Guðvarðarsonar á Sauðárkróki er nefnist Sýndar-alvara og segir hann á ferðinni vera samtíning frá þessum síðustu og verstu tímum, hugleiðingar um orð og atburði sem athygli hafa vakið bæði hans og annarra.

Í formála Björns Björnssonar segir að bókin inniberi stökur, undir allnokkrum bragarháttum, sem höfundurinn hefur kastað fram við ýmis tækifæri. „Hreinn hefur gaman af, og nýtur þess að leika sér með möguleika tungumálsins og bragformanna, þó að ferskeytlan sé honum oftast nærtækust og því er nafn bókarinnar vel til fundið. Við lesturinn munu margir telja að tími hafi verið kominn til, og jafnvel mátt vera miklu fyrr, að vísur Hreins kæmu fyrir almenningssjónir en margar þeirra hafa flogið víða, bæði innan og utan héraðs.“

„Þetta er samtíningur sem orðið hefur til, sitt úr hverri áttinni, sem ég hef verið að taka þetta saman. Ekki sérstakt þema, bara um líðandi stund og atvik sem komið hafa upp. Þetta er svo sem enginn stóri sannleikur,“ segir Hreinn og hlær við er blaðamaður spyr um tilurð bókarinnar. „Þetta byrjaði aðallega þegar við systkinin vorum að hlusta á þætti Sveins Ásgeirssonar í útvarpinu, sem hann kallaði rímsnillinga, og reyndum að botna. En það var ekki björgulegt allt saman. En ef menn gera nógu mikið af þessu þjálfast þetta svolítið,“ segir Hreinn sem núorðið hefur ekkert annað að gera en semja, eins og hann orðar það sjálfur.

Þeir sem hafa áhuga á að eignast kverið geta haft samband við Hrein í síma 863 9370 eða á Facebook-síðu hans. Einnig liggja eintök í afgreiðslu Nýprents. Verði er stillt í hóf; kr. 1.500,-.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir