Það er mikilvægast að vinna með stíl

Victor Borode í baráttunni. MYND: ÓAB
Victor Borode í baráttunni. MYND: ÓAB

Victor Borode (27) er einn af þeim leikmönnum sem Tindastólsmenn hafa fengið til liðs við sig frá Englandi til að styrkja liðið í baráttunni í 3. deildinni í knattspyrnu. Victor er af nígerískum uppruna en fæddur og uppalinn í London en fjölskyldan er risastór segir hann. Kappinn getur bæði spilað á miðjunni og í vörn en hann hefur mikið verið í stöðu hægri bakvarðar í leikjum Stólanna í sumar.

„Tækifærið að koma til Íslands kom þannig til að einn leiðbeinenda minna í þjálfun, en ég er að læra knattspyrnuþjálfun, mælti með þessu og alþjóðleg reynsla mín hjálpaði. Vegna COVID-lokunar í Bretlandi var ekki mikið að gera en ég fór að stunda hjólreiðar og jók tímann sem ég notaði í bóklestur,“ segir Victor í spjalli við Feyki.

Var tíminn í sóttkví erfiður eftir komuna til landsins? „Alls ekki, það var bara fínt í sóttkví, ég hélt áfram að lesa og æfa eins mikið og ég gat. Strákarnir sem ég bý með eru líka góðir drengir svo mér leiddist aldrei.“

Hvað hefur komið þér mest á óvart hér á Íslandi? „Ég held að enn hafi ekki neitt komið mér verulega á óvart, kannski á það eftir að gerast en ég efast um það.“

Hvernig er að vera í Tindastólsliðinu? „Að vera hluti af liðinu er ótrúlegt, ég elska áskoranir svo framarlega sem markmiðið er að vinna og vinna með stíl sem er nákvæmlega það sem liðið vill gera. Það finnst mér mikilvægast.“

Hver er uppáhalds liðsfélaginn? „Haha, það er ómögulegt fyrir mig að velja uppáhalds liðsfélagann þar sem ég er í góðu sambandi við alla leikmennina. En ef ég þarf að velja leikmann sem stendur upp úr hvað mig varðar þá væru það annað hvort Jónas eða Dóri, vinnusemi þeirra og löngun á vellinum er mikill eiginleiki.“

Hvaða væntingar gerðirðu til tímans á Íslandi? „Ég vona að við vinnum deildina eða að minnsta kosti ná að komast upp um deild, það er mikilvægt að við náum þessu fyrir Sauðárkrók og Tindastól. Sömuleiðis er mikilvægt fyrir mig að hjálpa stelpunum í yngri flokkunum að bæta sig síðan en ég tók að mér að aðstoða Amber við að þjálfa þær. Vilji þeirra til að læra hefur verið ótrúlegur og hann skilar smám saman framförum. Vonandi ná ein eða tvær þeirra að spila sinn fyrsta leik með meistaraflokki kvenna fyrir lok tímabilsins en það verður reyndar ekki auðvelt því það er skipað virkilega góðum leikmönnum sem eru að ná frábærum árangri á vellinum.“

Hvaða leikmaður hefur verið þín fyrirmynd? „Ég á mér ekkert sérstakt uppáhaldslið heldur frekar stíl. Lið eins og Leeds, Brentford, Manchester City, Arsenal, Leicester City, Chelsea, Wolves og Sheffield United. Ég hef gaman af því að horfa á og læra af öllum leikjum og leikaðferðum liðanna. Þeir leikmenn sem hafa veitt mér innblástur eru til dæmis Viera, fyrrverandi fyrirliði Arsenal, mjög greindur leikmaður sem að auki var alvöru stríðsmaður sem ég vona að ég eigi eftir að vinna með einn daginn, Clarence Seerdorf, ótrúleg gæði í honum og ég er svekktur að hafa ekki getað fylgst betur með hans ferli, Jay Jay Okocha, hann virtist hafa mjög gaman af fótbolta, og svo David Beckham sem að mínu áliti hefði getað orðið einn besti miðjumaður í heimi – ekki það að hann hafi átt eitthvað slæman feril!“

Hvað gerir þú annað hér á Króknum en spila fótbolta? „Strákarnir í liðinu hafa verið duglegir við að hafa okkur með og hafa verið frábærir í að láta okkur líða eins og heima hjá okkur, hvort sem þeir eru að fara út, grilla eða bara tjilla og horfa á fótbolta. Svo er ég að vinna hjá Dodda málara.“

 Hvað hefur verið erfiðast við að vera hér? „Það er kannski ekkert sem hefur verið sérstaklega erfitt en ég er borgarstrákur sem er að venjast því að búa í bæ.“

Í lokin segist Victor reyna að sleppa snakinu en bakkelsið í Bakaríinu sé æðislegt. Skrítnast finnst honum snakkið hans Ísaks, súkkuðlaðilakkrís með pipar. Lag sumarsins er Flýg feat. Bubbi Morthens eða Fólkið tekur ekki eftir með Ouse, Helga Sæmundi og Elijah Midjord.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir