Þuríður Harpa í Delhí - Rólegur dagur
Hér var allt í rólegheitum í dag. Við fórum á fætur á venjulegum tíma, í æfingar, sem gengu alltílagi nema ég var svoldið óstöðug og líka óstöðug á boltanum, við Shivanni kennum rófubeinssprautunni um það og erum þess fullvissar að ég verði miklu betri á morgun. Nú var spelkan tekin af hægra hnénu aftur í dag, smá breyting þar, mér gekk betur að setja hnéð aftur og mér fannst ég finna fyrir smá vöðvahreyfingu í lærvöðva og kálfa, það fann ég ekki í fyrsta skiptið. Auðvitað reynir maður að sleikja sólina þegar færi gefst, en svo skrýtið sem það er þá er frekar kalt hér í 22 stiga hita, samt alveg þolanlegt. Við Auður fundum okkur það til dundurs í dag að fara með hvítu spóaleggina okkar í vax, og fengum okkur svo andlitsnudd á eftir, er ekki um að gera að prófa þetta þegar svona herlegheit kosta bara rétt um 1200 kallinn. Við rúntuðum í nýtt hverfi og komumst svo að lokum heim í myrkri eftir stórri umferðargötu sem er hér rétt fyrir neðan hjúkrunarheimilið. Já, já við gösluðumst þetta í miðri umferðinni Auður með mig í hjólastólnum, stundum við hliðina á rútum, stundum bílum, mótorhjólum og bara nefndu það. Ótrúlegt hvað við komumst samt, þrátt fyrir þunga umferð. Á morgun er venjulegur dagur eins og í dag og líklega ekki mikið nýtt sem skeður. Við stefnum á að skoða fleiri gallerí í borginni líklega á sunnudaginn og jafnvel drífa okkur í eitthvert mollið á laugardaginn. Svo reikna ég með því að þurfa á hinn spítalann í fyrripartinn í næstu viku. Jeff og Lúkas eru að fara heim í kvöld, þeir eru mikið farnir að hlakka til en eru jafnframt búnir að ákveða að koma aftur líklega í nóvember ef Lúkas sýnir einhverjar framfarir, tíminn leiðir í ljós hvað verður, þeir koma þá í sína fimmtu ferð. Annars er æfingaprógramm Lúkasar ótrúlega stíft, hann æfir minnst 3 tíma á dag og fer svo á hverjum föstudegi á háskólasjúkrahús sem er í klukkutíma fjarlægð frá heimili hans. Þetta háskólasjúkrahús er það besta í mænuskaðaendurhæfingu, skyldist mér. Þarna fær hann sem sagt topp þjálfun og fer í gönguróbót samskonar og er til á Grensáss. Hann fer líka á rafmagnshjól á hverjum degi sem veldur því að hann nær algjörlega að viðhalda vöðvamassa í lærum og fótleggjum, sem er að mínu mati ákaflega mikilvægt. Jæja við stöllur erum báðar farnar að geispa hér, ætluðum að reyna að sjá leikinn -Noregur Ísland – en hann er ekki fyrr en um miðnætti að staðartíma hér, ég veit ekki alveg hvort við endumst svo lengi.