Þuríður Harpa - Útlegðin búin í bili

Fyrsta útlegðin er búin, við erum komnar heim á herbergi 207 og á móti mér situr Auður og stautar sig í gegnum orðabók á Hindi. Á mánudag fór ég í morgunæfingar meðan Auður fór um herbergið og pakkaði fyrir útlegðina. Við fórum í svörtu rúgbrauði og mér gekk ótrúlega vel að vega mig þar inn og út, þökk sé handföngum fyrir ofan hurðarkarm. Sjúkraþjálfu var ekki um sel þegar við komum að sjúkrahúsinu á Gautam Nagar. Umhverfið var ansi ólíkt sjúkrahús umhverfi heima. Utan á húsinu hékk þvottur, fyrir utan er leikvöllur og samkomustaður margra íbúa hússin. Á leiktækjunum öllum hékk þvottur en börnin léku sér í parís og fleiri leikjum. Konurnar sátu á rökstólum og fylgdust grannt með börnum sínum. Aðstoðarmenn komu út og keyrðu mér upp brattann rampinn, Auður fylgdi á eftir. Við komum í afgreiðsluna þar sem kunnugleg andlit birtust mér brosandi, ég beið eftir viðbrögðum frá sjúkraþjálfu um biðsalinn, minnug mínu fyrstu viðbrögðum þar sem mér fannst ég vera komin inn í mexikóska kúrekamynd frá 1980 og stödd í h…húsi. Hún fékk ekki sömu upplifun, þetta er bara ekki svo slæmt sagði hún og skimaði í kringum sig. Líklega hefur henni fundist þetta betra að innan en utan, en hún hafði myndað skiltið utan á sjúkrahúsinu alveg andaktug yfir því hvað það var sjúskað. Við fórum í lyftunni upp á 2. hæð, ónei, hugsaði ég þó ekki gamla, þrönga og ljóta herbergið aftur, en viti menn við fengum herbergið á móti og það var sveimérþá nokkuð betra, allavega rúmaðist rúmdýna á gólfinu plús það að Auður gat setið á sófaskrifli sem stóð upp við vegginn. Allsekki slæmt sagði hún undrandi, ég bjóst við miklu verra eftir lýsingum þínum að dæma. Jamm, mér finnst nú herbergið á NuTeck talsvert betra, sagði ég. Nebb, ég held mér finnist þetta betra sagði hún og með hárið greitt til hægri, fór hún að tína upp úr töskunum. Eins og í öðrum sem hafa fylgt mér hingað verður þjónustulundin afskaplega rík, ég er þjónustuð um morgunverð og kaffi. Hugsað er fyrir öllum flutningum og hvað eina, hvað gerði ég án minna ótrúlega gefandi ferðafélaga, líklega ekki margt. Ég fékk þvaglegg og náttfatnað og eftir skamma stund kom bláklædda gengið inn í herbergið. Þarna voru sannarlega kunnugleg andlit og ég heilsaði með virktum. Litli skurðstofutæknirinn sem venjulega hefur tekið á móti mér og föruneyti heilsaði mér hálfsyngjandi Harpa, harpa how are you, how is your mam and her husband. Tell them hi from me. Sagði hann, síðan hringdi síminn hans, ég hafði orð á við hjúkkuna að hann væri alltaf í símanum, já, svaraði hún, hann á fimm kærustur svo það er mikið að gera. Hann brosti gleitt og sagði að Donna hjúkka væri kærasta nr. 1. Svo dró hann í land og sagðist aldrei hafa orku fyrir fleiri en eina í einu. Að þessu sögðu var búið að troða færslulakinu undir mig, einn bograði yfir mér upp í rúminu svo var ég hífð yfir á bekkinn og flutt í lyftuna. Bless, komdu fljótt aftur, kallaði sjúkraþjálfa á eftir mér. Lyftan opnaðist og af gömlum vana setti ég lakið yfir andlitið, mér var ýtt í gegnum sterkan vind sem á að blása öllum sýklum frá skurðstofufordyrinu. Það er alltaf léttir að komast þar í gegn, mér var rúllað að skurðaborðinu og eins og áður var færslulakið notað við að koma mér yfir. Brúnir handleggir lögðu mig á hliðina og í fósturstellingum, með hökuna niður að bringu var mér haldið kyrfilega niðri. Á vísifingur var smellt súrefnismettunarmæli. Af höndum mannsins sem hélt mér barst dauf kryddlykt frá síðustu máltíð, eitthvað karrý örugglega og laukur, hugsaði ég. Dr. Ashish Verma sat og skrifaði í fælinn sinn eitthvað, hann kom nú að mér og heilsaði, spurði hvernig ég hefði það og sagði mér svo að hann myndi setja katader inn á T-8 svæðið og þar inn í Epidural. Sem mér skilst að sé þá þannig að leggurinn er þræddur alveg við hlið mænuslíðursins. Þar ætlaði hann svo að gefa mér fósturstofnufrumurnar næstu 2 sólarhringa. Ég beið róleg, vissi svo sem hverju ég átti von á, vissi að eftir að hann hafði sótthreinsað allt svæðið vandlega, þyrfti ég að strekkja mig ennfrekar í fósturstellinguna til að opna bilið vel á milli hryggjarliðanna. Brúnu handleggirnir héldu mér enn þéttar, eftir að hafa fundið þrýsting nokkrum sinnum á hrygginn, fann ég hvernig kviðvöðvarnir herptust saman og ég fékk gæsahúð upp að öxlum. Ok, allt eins og venjulega. Hvað finnur þú núna, spurði doktorinn. Ég svaraði því. Finnuru ekki fyrir neinum strekkingi ofar. Nebb allavega ekki enn, svaraði ég. Hann hélt áfram að sprauta í kataderinn sem reyndar er límdur utan á mig við hálsinn en stingst svo inn í hrygginn fyrir neðan skaðann. Ég fann ískaldan vökvann færast niður bakið á mér niður að skaðasvæðinu, þá fann ég ekki meir. Eftir smástund varð mér hálfflökurt og síðan strekktist á svæðinu ofan við skaðann, um mitt brjóstið, öndunin varð erfiðari og ég þurfti að draga andann djúpt til að fá nægt súrefni. Ég tilkynnti hvernig líðanin var og doktorinn svaraði því til að það væri absalútlí exelant. Eftir smástund fékk ég þrýsting í gagnaugun og það fannst doktornum alveg dásamlegt. Allt eins og hann vildi helst hafa það, þetta sýndi sem sagt að vökvinn var komin fram hjá öllum örvef upp fyrir skaðaða svæðið, sem sagt átstanding. Ég var varlega færð til baka og sett á bakið, síðan rúllað sömu leið til baka þar sem sjúkraþjálfa beið í óvissu um hvernig ég yrði þegar ég kæmi. Allt í góðu sagði ég, mér líður bara fínt, og máttu liggja á bakinu, spurði hún forviða. Já, ég fæ svo nýjan skammt um áttaleytið og þá þarf ég að liggja í annarri stellingu í 2 tíma. Á bakinu lá ég í rúma fjóra tíma, og eins og áður eru múrsteinar settir undir fótagaflinn til að allt renni mér nú vel til höfuðs. Tíminn leið og ég dormaði, múrsteinarnir voru fjarlægðir og okkur borinn matur. Við vorum glorsoltnar orðið og ég verð að segja að þrátt fyrir að fiskurinn liti út eins og kjúklingur þá fannst af honum fiskbragð, maturinn er ekki jafnkryddaður og áður. Dr. Ashish kom um átta og ég fékk nýjan skammt, hér eftir þurfti ég aðeins að liggja í stellingum í 2 tíma og síðan mátti ég reisa mig við, sannarlega framför. Læknir á stofugangi kíkti inn, sjúkraþjálfa greip hann glóðvolgann og spurði hann spjörunum úr. Mr. David hafði að sjálfsögðu kíkt inn til okkar um daginn, kynnt sig fyrir Auði afskaplega stimamjúkur, spurt hvort okkur vanhagaði um eitthvað og spjallað svo dágóða stund, sjúkraþjálfu fannst eins og mér hafði fundist við fyrstu viðkynningu af honum, hann vera svoldið refslegur. Við sofnuðum út frá hundaspangóli. Morguninn eftir vorum við vaktar um níu, dagurinn hófst eins og venjulega á mælingum, tæmingu á þvagpoka sem the wardboys sjá um og morgunverði. Svo kom næsta inndæling og ég lá á vinstri hliðinni. Dagurinn leið, ég las Arnald í einum rykk, Auður skrapp út að taka myndir af fólkinu í garðinum og á göngu sinni um svæðið. Eftir kvöldmat fékk ég nýja inndælingu og dr. Ashish, -lýsti fyrir Auði, með öllu andlitinu, hvað ég væri frábær sjúklingur, hvað ég væri einbeitt í að ná bata og hvað ég legði sjáanlega mikið á mig til þess, enda fannst honum að mér gengi vel. Eftir lofræðuna vildi hann vita hvort hún myndi eftir mér áður en ég kom til Delhí. Jú hún mundi, og finnst þér ekki hafa orðið breyting sagði hann með mikilli sannfæringaáherlsu í málróminum . Jú, hún gat ekki borið á móti því. Við spjölluðum áfram og hann fræddi okkur um meðferðina, á morgun er þjóðhátíðardagur Indverja, þá er allt með kyrrum kjörum en mikil hátíðarhöld í kringum India Gate og forsetahöllina, sagði doktorinn, verí bjútífúl, verí bjútífúl, jú vill love it, þið þurfið endilega að sjá þetta. Eftir að hann var farinn lágum við og lásum, enda lítið annað að gera þar sem ég átti að liggja á maganum í tvo tíma. Alltíeinu byrjuðu lætinn, dúndrandi diskótónlist, bassadrynjandi og tekknó, þeyttist milli veggja í herberginu, ertu ekki að grínast sagði Auður. Hvað er eiginlega í gangi, eftir að hafa þolað þetta í um korter var komin tími á skýringar og hún stormaði fram til að tékka. Hún kom til baka með þær upplýsingar að það væri ball í skólanum við hliðina og við eins og reyndar allt hverfið urðum að þola þetta. Tónlistin var reyndar bara ágæt, Justin Beeber remixaður ásamt fjölda annarra bandarískra poppara og indverskum takti bætt kröftuglega inn. Þessa seinni nótt sváfum við ekkert sérlega vel, dýnan var að kvelja Auði, sem reyndar hafði á þessum tíma sem við vorum þarna byrjað á að taka út aðkenningu að Deli Belly deginum áður og þennan dag hafði hún verið að drepast úr höfuðverki. Líklega hefur hún tekið alla verki frá mér, því mér leið bara fínt og var hin hressasta. Hún hafði samt orð á að þetta væru eins og jólin fyrir sér, að liggja bara fyrir meirihlutann að deginum og lesa. Hafði sko ekki gert þetta lengi. Við lukum dvölinni á hinum spítalanum í dag, eftir að hafa rætt lengi við dr. Ashish og fengið ýmisar upplýsingar frá honum (þó reyndar sé svoldið erfitt að skilja enskuna hans þar sem hún er svo töluð með miklum indverskum framburði) þá græddum við báðar heilmikið á spjallinu, um hvernig þessar stofnfrumur virka, og hann sagði eins og svo oft áður, við vitum ekki allt um þessar frumur en á átta árum hefur enginn hlotið skaða af og við sjáum fólk fá ótrúlegan bata við ýmsum kvillum. Það sem við getum hinsvegar ekki sagt um enn er afhverju virknin verður ekki strax af fyrstu meðferð, endanleg. Afhverju þarf að sprauta svona oft. Þau telja að örvefurinn í mænunni sé mesti skaðvaldurinn og ef örvefurinn er ekki of þykkur þá tekst stofnfrumunum smá saman að brjótast í gegn. En enginn sjúklingur er eins og sumir fá sjáanlegan bata meðan nokkrir einstaklingar hafa engan bata fundið. Við erum í raun að gera tilraun við sjúklingarnir og læknar hér á Nu Teck og hversu kreisí sem það hljómar, þá er ég glöð að fá að taka þá ákvörðun sjálf að vera hluti af tilraunin. Mér finnst að ákvörðunarréttur um svona hluti eigi að liggja hjá sjúklinginum sjálfum en ekki vera ákveðin af heilbrigðisyfirvöldum. Ég vildi óska að við íslendingar stigjum út fyrir boxið okkar og gæfum þessum stofnfrumum séns, að við ákvæðum að hvert mænuskaðatilfelli yrði meðhöndlað með stofnfrumum strax í upphafi, strax á skurðaborði. Að sjúklingurinn sjálfur gæti ákveðið fyrir sig hvort hann vildi prufa þetta. Ef engu er að tapa en allt að vinna, hver er þá skaðinn? Að sjálfsögðu er þessi stofnfrumurannsókn stutt á veg komin í raun aðeins um 8 ár síðan þau fóru að beita henni sem almennu merðferðarúrræði, og þó að þessi átta ár hafi liðið án þess að nokkur af okkur sjúklingunum hafi orðið meint af þá getum við ekki sagt til um hvað gerist á næstu árum, allt sem maður getur gert er að vona að batinn verði meiri og lífsgæðin betri. Vonin er það sem knýr mann áfram, ef hún er ekki til staðar er líf manns talsvert snauðara

Fleiri fréttir