Þuríður í Delhí -Fyrsta mollferðin að baki

Já, þá er það búið, er búin að fara með sjúkraþjálfu í moll þar sem við áttum verulega ábatasaman dag. Haldiði ekki að það sé bara allt vaðandi í útsölum hérna núna, og þrátt fyrir áttatíma törn í mollinu í dag höfum við uppi áform um að fara í annað moll á morgun og fresta ferðinni í listasafnið. Svo verður bara að koma í ljós hvernig við verðum stemdar. Eins og er liggjum við útaf með lappirnar upp í loft og gæðum okkur, örþreyttar eftir veiðina, á súkkulaði og kaffi. Annars benti sjúkraþjálfa húkkugenginu á að ég ætti alla pokana, og hún bara einn, ég hef lúmskan grun um að hún hafi troðið sínu dóti í mína poka. Hún er allavega búin að sjá að hér eru margar sömu búðir og heima, Zara, Vera Moda, Only og svo frv. Og hér eru líka margar spennandi indverskar búðir sem gaman er að skoða í, talsvert frábrugnar þeim evrópsku. Eftir verslunartörnina ákváðum við að borða á Fridays, sem var í sjálfu sér bara gott fyrir utan þennan ótrúlega hávaða sem alltaf þarf að vera inni í búðum hér eða restauröntum.

Ég var lúin þegar ég vaknaði í morgun, þrátt fyrir að hafa sofið sæmilega vel var ég gjörsamlega lurkum lamin. Veit eiginlega ekki hvað þetta á að fyrirstilla nema þá helst að þetta er fyrsta vikan hér og ég bara hreinlega orðin uppgefin, með harðsperrur og auma liði eða eitthvað. Ég finn skrýtna tilfinningu áfram á mjaðmasvæði, bakhluta og lærum svona eins og allt sé strekkt þarna inní en samt eru vövarnir bara slappir, svo skrýtið hvernig skynjunin er. Shivanni ávað að kvelja mig ekki mikið í morgun en lét mig reyna að ná kontakt við hægra hnéð aftur, þetta mjakast og gengur svosem betur nú en fyrst, það verður gaman að sjá hver framvindan verður. Á morgun er sunnudagur og ég mun allavega njóta þess að sofa frameftir.

Fleiri fréttir