Þyngsti tuddinn frá Hamri
Í dag var felldur á Sláturhúsi KS á Sauðárkróki þyngsti nautgripur sem lagður hefur verið þar inn til þessa. Var hann alinn upp á Hamri í Hegranesi og vóg hann nýslátraður 569,6 kg.
Að sögn Sævars Einarssonar bónda telur hann að tuddinn sé sá þyngsti á landinu sem lagður hefur verið inn til slátrunar. Annar nautgripur sem Sævar lagði inn í dag reyndist í þyngra lagi líka en sá mældist 516 kg. Gerir þá innlegg dagsins samtals 1 tonn og 85 kg.
Sævar sagðist eiga um 14 holdakýr í fjósi og má því búast við viðlíka innlögnum í framtíðinni.