Til hvers er barist? | Leiðari 41. tölublaðs Feykis
Ég las um helgina að árið 2025 væri Kvennaár. Ég verð að viðurkenna að ég var svolítið hissa á þessu því einhvern veginn hafði þetta alveg farið fram hjá mér. Nú má vera að ég hafi heyrt þetta en ekki meðtekið skilaboðin, við karlangarnir eigum það víst til.
Nýprent er ekki fjölmennur vinnustaður. Við erum fjögur og ég er eini karlinn, sem getur að sjálfsögðu tekið talsvert á. Enginn áhugi á að ræða enska boltann. Dömurnar á Nýprenti eru reyndar harðduglegar og eru með böggum hildar ef þeim fellur verk úr hendi. Ef ég las rétt í umræðuna þeirra á milli í síðustu viku þá voru þær ekki alveg vissar hvort þær ætluðu að skilja mig einan eftir í vinnunni síðastliðin föstudag, þegar konur voru hvattar til að leggja niður störf og krefjast jafnréttis.
Mig minnir að ég hafi hvatt þær til að taka þátt í verkfallinu en ég er auðvitað kominn á sextugsaldur og kannski farinn að gleyma eða hagræða sannleikanum þegar það hentar. Og hafi ég sagt eitthvað þá er auðvitað næsta víst að þær hafi tekið því sem ég sagði alveg öfugt. Þannig vill það nú oft vera þegar kynin tala saman og nú hefur kynjunum fjölgað og það einfaldar sennilega ekki samskiptin.
Á endanum ákváðu dömurnar að leggja niður störf kl. 13:30 á föstudegi en ekki heyrði ég annað en að þær ætluðu að skella sér á þriðju vaktina eða hvað þetta nú kallast. Taka til, sækja börnin í leikskólann, setja í vélina, stinga upp kartöflur, taka sig til fyrir tónleika og allt þetta sem konur gera meðfram vinnunni sinni.
Fyrr um morguninn var varpað fram spurningunni hvað það væri sem vantaði upp á til að konur teldu fullu jafnrétti náð. Aldrei þessu vant varð fátt um svör. Einhver nefndi þó að konur fengju ekki allar sömu laun fyrir sömu vinnu og karlarnir. Sú lenska hlýtur þó að vera á undanhaldi því ég held að allir – eða í það minnsta flestir – sjái að það er ekkert eðlilegt við það.
En fyrir hverju er þá verið að berjast?
„Kröfur Kvennaárs eru einfaldar kröfur og aðgerðir sem stjórnvöld geta komið í framkvæmd til að taka stór skref í átt að jafnrétti. Þær eru í þremur flokkum; launamisrétti kynjanna, ólaunuð vinna kvenna og kynbundið ofbeldi. Á meðal þeirra eru kröfur um að endurmeta virði kvennastarfa, brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og grípa til margvíslegra aðgerða til að útrýma kynbundnu ofbeldi,“ segir m.a. á heimasíðu Kvennaárs.
Á föstudaginn var þess minnst að 50 ár eru síðan konur lögðu niður störf á landsvísu. Á samstöðufundi í Miðgarði flutti Sigríður Garðarsdóttir í Miðhúsum erindi og sagði m.a.: „Þökkum formæðrum okkar baráttuna sem þær háðu fyrir okkar hönd en tökum ekki stöðu okkar í dag sem sjálfsögðum hlut. Gleðjumst yfir því sem við höfum en munum að það að gefa slaka er undanhald.“
Áfram konur, kvár og karlar!
Óli Arnar Brynjarsson
ritstjóri
