„Tilfinning að frumsýna leikrit er alltaf mögnuð,“ segir Sigurlaug Dóra, formaður LS

Það þykir tíðindum sæta að Leikfélag Sauðárkróks skuli ekki frumsýna Sæluvikustykkið í upphafi menningarvikunnar eins og hefð er fyrir hvað þá að engin sýning verði í vikunni. Það á sér þó sínar skýringar sem kenna má sóttvarnareglum og Covid-ástandi í vetur. Feykir lagði spurningar fyrir formanninn og byrjaði á að forvitnast um ástæður þess að frumsýnt sé eftir hina eiginlegu Sæluviku.

„Það kemur til af því að þegar við vorum komin vel af stað inn í æfingatímabilið kom enn og aftur bakslag vegna Covid-19 faraldsins. Reglurnar breyttust og við þurftum að breyta æfingaplani til þess að fylgja sóttvarnareglum, við gátum æft en með miklum takmörkunum og því urðum við að seinka frumsýningu aðeins til þess að sýningin yrði fullæfð með öllum leikhópnum.

Hvernig hafa æfingar gengið?
Æfingar hafa gengið mjög vel, eiginlega bara ótrúlega vel miðað við það að þetta er stór og viðamikil sýning með mörgum leikurum. Æfingar hafa líka gengið vel af því að leikhópurinn hefur verið ótrúlega þolinmóður, duglegur og jákvæður fyrir öllu því sem hefur þurft að breyta með oft stuttum fyrirvara í samræmi við sóttvarnarreglur og tilmæli. Við erum með góðan leikstjóra sem hefur skilað góður starfi og verið lausnamiðaður og stjórn félagsins hefur unnið vel saman og tekið erfiðar en réttar ákvarðanir.

Hvernig tilfinning er það að heimsfrumsýna leikrit?
Tilfinning að frumsýna leikrit er alltaf mögnuð. Það er eitt af því sem er svo skemmtilegt í leiklistinni að þó svo að maður hafi frumsýnt mörgu sinnum áður þá myndast alltaf upp á nýtt spenna, stress, leikgleði, ánægja og svo spennufall við hverja sýningu. Að heimsfrumsýna er svo þetta allt í raun með smá extra viðbót og verður ennþá meira spennandi því þá mótar leikhópurinn verkið oft í raun enn meira þó svo að hver leikhópur geri hverja sýningu að sinni. Svo er líka enginn búinn að sjá verkið áður hjá öðrum og það myndast öðruvísi stemming og eftirvænting. Verð samt að segja að þó ég hafi tekið þátt í að heimsfrumsýna leikrit áður held ég að eftir óvenju langt og snúið ferli sökum heimsfaraldurs þá verður þessi heimfrumsýninga tilfinning örlítið sætari en þær fyrri

Ertu bjartsýn á aðsókn?
Já, ég er bjartsýn á aðsókn, við munum passa vel upp á sóttvarnir og erum viss um að leikhúsgestirnir okkar taki þátt í því með okkur. Við erum orðin mjög spennt að fá að sýna Á frívaktinni fyrir gesti sem ég er viss um að eru orðnir þyrstir í að upplifa menningu eftir langa bið. Á Frívaktinni er skemmtilegt leikverk sem á eftir að fá fólk til upplifa sennilega bara allan tilfinningaskalann meðan á sýningu stendur. Áhorfandinn á bæði eftir að hlægja með og af persónum verksins en líka finna til með þeim og fá kusk í augun. Tónlistin í verkinu er líka skemmtileg og falleg.
Ég hvet svo fólk að panta miða tímanlega og endilega að þeir sem eru saman í sóttvarnarkúlu að panta og koma saman í leikhús þar sem það hjálpar okkur mikið upp á sóttvarnir og uppröðun í sal. Einnig þarf fólk að vera með fullt nafn, kennitölu og símanúmer allra gesta klárt þegar pantað er.
Hlakka til að sjá sem flesta í leikhúsinu!

Fleiri fréttir